Yfirvofandi heimsendir

Mynd: EPA / EPA FILE

Yfirvofandi heimsendir

21.07.2019 - 15:00

Höfundar

„Við munum öll deyja. Öll. Við deyjum öll. Við munum öll deyja. Kæri lesandi, þú ert dauðans matur,“ segir Karl Ágúst Þorbergsson í öðrum pistli sínum um hamfarahlýnun og heimsendi.

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Í síðustu viku fjallaði ég lítillega um þessa staðreynd lífs okkar og hvernig hún hefur tekið ákveðnum breytingum í kjölfar loftslagskreppu í þá átt að tilvist okkar sem tegundar hér á jörðinni er ógnað, þ.e.a.s. ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða strax til að stemma stigu við hamfarahlýnun, munum við öll, sem tegund, deyja.  

Einnig kom ég inn á að þessi yfirvofandi heimsendir byggðist á afar þversagnakenndu sambandi okkar mannanna við náttúruna. Á síðustu 200 árum eða svo höfum við markvisst unnið að aðskilnaði manns og náttúru og skilgreint manninn sem æðri náttúrunni og ýtt henni lengra og lengra út á jaðarinn. Maðurinn býr ekki aðeins yfir öflugum skilgreiningamætti heldur einnig krafti til að beisla og stýra hinni óstýrilátu náttúru og koma henni í skilning um að það séu lögmáls manns og fjármagns sem ráða en ekki náttúru- og eðlisfræðinnar. Það mætti jafnvel á stundum skilja ástandið á þann veg að við manneskjurnar teljum okkur ekki tilheyra mengi náttúrunnar, heldur erum við eitthvað annað, að við tilheyrum okkar eigin lokaða mengi. Staðreyndin er hins vegar sú að við erum náttúra og án náttúru erum við ekkert.  

Íslendingar eru meðal mestu umhverfissóðanna

Frá örófi alda, ég held reyndar að það sé óhætt að segja frá upphafi tilvistar okkar hér á jörðinni, hefur þetta legið fyrir, þ.e. að við getum ekki lifað án þess að vera í afar nánu sambandi við náttúruna, þaðan sem við fáum nauðsynlega næringu í formi matar og vatns til að viðhalda lífi. Hér á Íslandi ætti þetta að vera kýrskýrt. Við höfum lifað með vægast sagt harðneskjulegri og óáreiðanlegri náttúrunni í um tólf hundruð ár og þekkjum á eigin skinni og í gegnum áföll forfeðra okkar hversu erfið sú lífsbarátta getur verið. Þó svo að samfélag okkar í dag sé töluvert þróaðra en það var fyrir rétt rúmum 100 árum stólum við, eins og áður fyrr, nánast alfarið á náttúruna. Stærstu atvinnugreinar samfélagsins eru sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkuiðnaður en allar þessar greinar reiða sig á náttúruna á einn eða annan hátt. Það er því ansi þversagnakennt að við Íslendingar erum einhverjir mestu umhverfissóðar heims og skilum af okkur helmingi meira af koltvísýringi en Evrópusambandsríki gera að meðaltali. En þess má geta að síðast þegar gildi koltvísýrings í andrúmsloftinu voru svona há var frumskógur á Suðurskautslandinu.  

Hrakfallasaga Vaðlaheiðarganga og Landeyjahafnar

Það er þó fleira þversagnakennt í sambandi okkar Íslendinga við náttúruna. Þrátt fyrir langt og stormasamt samband og endalaus dæmi um hið gagnstæða þá virðist vera að við Íslendingar teljum okkur geta stýrt náttúrunni eftir eigin hentisemi. Tvær nýlegar framkvæmdir sýna ágætlega fram á hversu fallegt og ljóðrænt þversagnakennt samband okkar við náttúruna getur verið um leið og það birtir okkur breyskleika siðmenningar. Á ég hér við Vaðlaheiðargöng annars vegar og Landeyjahöfn hins vegar.  

Hrakfallasaga þessara framkvæmda er að mörgu leyti keimlík. Báðar hafa þær alveg frá upphafi verið mjög umdeildar, út frá pólitískum sjónarhóli en einnig fjárhagslegum og ekki síst jarðfræðilegum. Í skýrslum, bæði opinberum og þeim sem stjórnmálamenn stungu undir stól, kemur fram að þær sé mjög áhættusamar, ekki aðeins vegna óvissu um arðsemi heldur einnig hvað varðar óvissu um jarðfræðilega eiginleika næsta nágrennis, Vaðlaheiðarinnar sjálfrar annars vegar og sanda og strauma úti fyrir Landeyjum hins vegar.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Sanddæluskipið Perla örmagnaðist og sökk árið 2015.

Siglt inn í fjallið á árabát

Í Vaðlaheiði eru miklar vatnsæðar, heitar og kaldar, og nánast hægt að fullyrða að hik hefði komið á hvaða jarðfræðing með BA gráðu sem er ef stjórnmálamenn hefði nálgast hann með vonarglampa í augum og spurningu um göng. Enda koma það líka á daginn þegar hafist var handa við að bora að stórar heitar og kaldar vatnsæðar opnuðust með látum í sitt hvorum endanum og hreinlega fylltu göngin af vatni. Vestan megin flæddu um 350 lítrar á sekúndu af 46° heitu vatni út úr gangamunnanum, runnu í stríðum flúðum niður hlíðina og féllu til sjávar í tilkomumiklum fossi beint á móti Akureyrarhöfn. Austan megin fossuðu síðar um 500 sekúndulítrar út um göngin og stífluðu göngin alveg. Til samanburðar með geta þess að meðalvatnsneysla Reykjavíkur eru um 700 lítrar á sekúndu. Vatnsmagnið og hitinn inn í göngunum gerðu það að verkum að það var nánast ómögulegt að halda áfram vinnu. Samt skal nú grafið og til þess að meta aðstæður sigldu gangnamenn inn í fjallið á árabát. Það fellst einhver ljóðræn skekkja í því að menn sigli inn í fjall á árabát og efast ég um að myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson hefði getað rammað fegurð þessara framkvæmda betur inn.  

Kostnaður nálgast 17 milljarða

Upphaflega stóð til að opna göngin í janúar 2011 og að þau myndu kosta 8,7 milljarða. Vatnselgurinn, mikill jarðhiti og erfið berglög töfðu þessa framkvæmd um samtals 8 ár og voru þau opnuð við hátíðlega athöfn í janúar síðastliðnum. Meðal dagskráratriða á opnunarhátíð var líkamsræktartími í boði World Class í miðjum göngunum en þar er eins konar kjörhitastig fyrir hvers kyns líkamsmótun, eða rúmlega 20 stiga hiti. Göngin stytta leiðina til Húsavíkur um 16 kílómetra en ein af frumforsendum framkvæmdanna var að gera Norðausturkjördæmið að einu atvinnusvæði. Gott ef einhver ráðherrann hafi ekki einmitt sagt að það yrði að vera mögulegt fyrir stjórnendur mögulegs álvers á Bakka að geta flogið frá Reykjavík til Akureyrar, hoppað upp í bíl og verið komnir á Húsavík á innan við klukkutíma. Og þar er ekki ólíklegt að glitt hafi í hinar eiginlegu frumforsendur, þægindi stjórnarmanna stóriðjufyrirtækjanna. Endanlegur kostnaður liggur ekki alveg fyrir en hann nálgast nú óðfluga 17 milljarða, eða rúmlega einn milljarð á kílómetra sem sparast hefur með framkvæmdunum.  

Örmagna sanddæluskip

Nánast er hægt að fullyrða að aftur hefði komið verulegt hik á jarðfræðinga sem stjórnmálamenn nálguðust með vonarglampa í augum og spurningu um höfn í sandinum austur í Landeyjum, við hliðina á ósum Markarfljóts. Þrátt fyrir aðvaranir var nú samt ákveðið að fara í framkvæmdina og virðist nú ríkja einhvers konar þrátefli þar sem við mennirnir keppumst við að moka sandi úr höfninni á meðan Markarfljót í samstarfi við hafstrauma skóflar sandinum jafnóðum til baka í höfnina. Við höfum reynt okkar besta og meðal annars teflt fram dæluskipunum, Dísu, Sóleyju og Perlu. Þrátt fyrir mikinn viljastyrk og mörg hestöfl hafa þær stöllur ekki ráðið neitt við neitt og gáfust fljótt upp. Það var ekki fyrr en belgíski risinn Galileo 2000 hóf að dæla sandi af alefli úr höfninni að einhver skriður komst á dýpkunina. Perla var svo uppgefin að hún sökk öllum að óvörum í Reykjavíkurhöfn í nóvember árið 2015. Einnig kom það á daginn að Herjólfur gamli gat engan veginn tekist á við sandinn eða ölduhæðina við Landeyjahöfn og gat ekki siglt til hafnar nema þriðjung úr ári þegar í best lét.

Dæluskipin eru að störfum nánast allt árið um kring, stundum þrjú í einu, en Herjólfur staldrar aðeins við nokkra mánuði á ári og mætti því réttilega spyrja sig hvort höfnin sé gerð fyrir siglingar milli lands og Eyja eða fyrir sanddælinguna og siglingarnar séu eins konar aukaverkun. Margir hefðu kannski staldrað við á þessum tímapunkti og farið í það að kanna hvort eitthvað væri mögulega bogið við forsendur framkvæmdarinnar en ekki í tilfelli Landeyjahafnar. Í þeirri glímu skal maðurinn leggja náttúruna og var því brugðið á það ráð að láta smíða nýjan Herjólf sem myndi léttilega ráða við ölduhæð Suðurlandsins og sandinn. Kostnaður framkvæmdarinnar við höfnina var um 1,2 milljarðar króna í upphafi en viðhaldskostnaðurinn einn og sér, þ.e. sanddælingin, er kominn upp í rúmlega 3,3 milljarða. Nýr Herjólfur kostar um 5 milljarða til viðbótar. Segja má að kostnaður þessarar baráttu manns og náttúru standi því í um 11 milljörðum króna.  

Sigmundur Davíð sagði tækifæri í loftslagsvandanum

Þó svo að framkvæmdir við Landeyjahöfn og Vaðlaheiðargöng séu ekki beinlínis gerendur í þeirri loftslagskreppu sem leggst nú á heimbyggðina af fullum þunga eru þær ágætis dæmi um viðhorf okkar mannanna til náttúrunnar. Við eru ekki hluti af sama mengi heldur tveir ósamhangandi þættir í tilviljanakenndri keðju lífs á jörðinni. Í þessu sambandi kristallast píramídahugsun okkar mannanna þar sem við trónum á toppi píramídans og allt annað líf á jörðinni lýtur valdi okkar. Fjarri sannleikanum verður vart komist. Í stað þess að takast á við rót vandans er ítrekað horft fram hjá honum ef hagsmunirnir eru nægilega miklir og þegar vandinn kemur upp skapar það einungis tækifæri fyrir nýjar úrlausnir. Þetta sést mjög vel í viðhorfi formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem sagði í sinni forsætisráðherratíð að loftslagsvandinn fæli í sér stórkostleg tækifæri fyrir Íslendinga.  

„Menning er að gera hlutina vel,“ sagði Þorsteinn Gylfason heimspekiprófessor. Í þeirri menningu sem nú stýrir allri orðræðu samtímans er orðið ansi erfitt að greina hvað það er sem vel er gert með tilliti til sambands manns og náttúru, hvar stjórnmálamenn eru að vanda sig og hugsa til menningar framtíðarinnar en ekki þjóna hagsmunum sínum og hinna ráðandi efnahagsafla og stórfyrirtækja. Ef fram heldur sem horfir og ekki verði hætt að efast um aðvaranir vísindamanna þá má telja líklegt að sagnfræðingar framtíðarinnar líti til baka furðu lostnir og lendi í vandræðum með að flokka núverandi tímabil einstaklings- og nýfrjálshyggju og auðlindaarðráns undir menningu.  

Og þá er alls óvíst hvort þau harmkveðnu ljóð um brothætta tilvist mannsins sem þau Dísa, Sóley, Perla og Galileo ortu muni ná eyrum okkar mannanna, enda dróttkvæð, tyrfin og skrifuð í sandinn.  

Að lokum legg ég til að kapítalisminn verði lagður í rúst. 

Tengdar fréttir

Pistlar

Við munum öll deyja