Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfirvofandi eldsneytisskortur í Portúgal

11.08.2019 - 15:04
epa07764343 A gas station which is ran out of diesel and gasoline in Porto, Portugal, 09 August 2019. The national strike of Portugues dangerous goods lorry drivers is planned for 12 August for an indefinite period.  EPA-EFE/JOSE COELHO
 Mynd: EPA-EFE - Lusa
Eldsneytisbirgðir fjölda portúgalskra bensínstöðva kláruðust í dag þegar ökumenn flykktust þangað til að fylla á bensíntanka og ná í eldsneyti áður en verkfall olíubílstjóra hefst á miðnætti að staðartíma.

Sala á eldsneyti tvöfaldaðist síðustu daga og birgðir 15 prósenta af þeim 3000 bensínstöðvum sem eru í landinu voru uppurnar í dag. Búið er að hengja skilti á bensíndælur víða um Portúgal um að allt eldsneyti sé búið.

Ótímabundið verkfall olíubílstjóra hefst á miðnætti, eftir að kjaraviðræður runnu út í sandinn í gær. Olíubílstjórar fóru í fjögurra daga verkfall í apríl, skömmu fyrir páska, og það varð töluverður eldsneytisskortur í landinu í kjölfarið. Því verkfalli lauk eftir að komið var til móts við kröfur bílstjóranna um launahækkanir en nú fara þeir fram á frekari launahækkanir á næstu tveimur árum.

Ríkisstjórn Portúgals hefur lýst yfir orkukreppu og brugðið á það ráð að skammta bensín. Eigendur almennra ökutækja fá 25 lítra af bensíni en flutningabílar 100 lítra. Forsætisráðherra Portúgal, Antonio Costa, býst þó við því að verkfallið muni hafa veruleg áhrif á neytendur. 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV