Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfirþyrmandi fagur og lífshættulegur í senn

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Yfirþyrmandi fagur og lífshættulegur í senn

30.01.2018 - 18:46

Höfundar

Í íslenskum skáldskap birtast jöklar ýmist með vábrestum og ógn eða að þeir eru yfirþyrmandi í fegurð sinni, sagði Soffía Auður Birgisdóttir í fyrirlestri sínum á ráðstefnunni Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu.

Soffía Auður vitnaði meðal annars í Beatrice, persónu í skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Jöklaleikhúsið: „Guð minn almáttugur,“ sagði ég, „þetta er nákvæmlega eins og á fyrsta degi. Ég þarf ekki fleiri paradísir en þessar.“ Í Jöklaleikhúsi Steinunnar Sigurðardóttur er jökullinn -  sem er „ekki einn jökull heldur margir og sumir vilja sigla á haf út í sinni svarthvítu sand og ísgrafík“  - yfir og allt um kring og drifkraftur framvindu frásagnarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Skriðjöklar Vatnajökuls séðir frá Bakka. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Jökulheimurinn er gjarnan paradísískur í skáldskap. Ægifegurðin eða hið háleita er þó sjaldan langt undan þegar talað er um jökla í bókmenntum, jafnvel þótt maður verði, líkt og persónan Fastagestur í Ófeigs Sigurðssonar Öræfi, „eitthvað svo syfjaður og þreyttur í höfðinu að vera sífellt uppnuminn af fegurðinni.“ En jöklanáttúran er líka, „framandi, grimm og óvægin.“

Náttúruvísindi og skáldskapur

Í íslenskum jafnt sem evrópskum bókmenntum eru náttúruvísindi og skáldskapur nátengd fyrirbæri. Í því sambandi nægir að benda á skáld og náttúrufræðinga eins og Jónas Hallgrímsson og Benedikt Gröndal en náttúrufræðin og skáldskapur standa einnig þétt saman í verkum náttúruvísindamanna eins og Þorvaldar Thoroddsen og Guðmundar Páls Ólafssonar.

Náttúruvísindi og skáldskapur tengjast og í tungutaki, segir Soffía Auður. Ekki síst „tengist tungutak rómantísks skáldskapar bæði landafræði og jarðfræði,“ sem líklega má rekja til þess að rómantíkin kemur fram á sjónarsviðið á sama tíma og ýmsar nýjar uppgötvanir eru gerðar í náttúruvísindum, einkum jarðfræði. Bandaríski bókmenntafræðingurinn Noah Heringman hefur í skrifum sínum bent á tengsl rómantískra myndlíkinga og nýrra jarðfræðiuppgötvana þess tíma enda séu „rocks,“ eins og Noah kallar náttúrufyrirbæri eins og kletta, fjöll og jökla einu nafni, „kveikjurnar að þeirri reynslu sem lýst er í skáldskap og kennt er við hið háleita.“ Í því samhengi má bendir Soffía Auður á að orðið jarðfræði er upphaflega komið úr grísku „geologia,“ „geo“ sem er jörð og „logos“ sem er orð eða í útleggingu Soffíu Auðar: „steinarnir tala.“

„Hugmyndin að rómantísk skáld reyni að nema tungumál jarðarinnar og miðla því í listrænni sýn er mjög fyrirferðarmikil í umræðu um rómantískan skáldskap sem og í skáldskapnum sjálfum.“

Nátturunnar numdir mál,
numdir tungur fjalla,
svo að gastu stein og stál
í stuðla látið falla.

Svo orti Grímur Thomsen um Jónas Hallgrímsson. Og Soffía nefnir fleiri dæmi  úr skálfskap um það, sem Þorvarður Árnason náttúruheimspekingur, hefur kallað „möguleika okkar á tjáskiptum við náttúruna, hvort eða á hvaða hátt náttúran getur verið uppspretta merkingar og hvernig við getum skilið þá merkingu.“

Þórbergur og náttúran í Suðursveit

Soffía Auður Birgisdóttir hefur einkum rannsakað svokallaðar Suðursveitarbækur Þórbergs Þórðarsonar og segir hann þar iðka, „fagurfræði jarðfræðinnar eða jarðfræðilega fagurfræði.“

Meginhluti fyrirlesturs Soffíu Auðar fjallaði og um verk Þorbergs, einkum skrif hans um Öræfajökul, jökulinn sem hann segir að sé „svo mikill fyrirferðar, svo margvíslegur, svo óviðráðanlegur í hugsuninni, svo ólíkur öllum öðrum jöklum að ég botnaði lengi vel ekkert í honum [...] af honum skein þvílíkur mikilleiki og heiðrík ró og hátign að maður fór að hugsa alveg óskjálfrátt háleitar hugsanir.“

Mynd með færslu
Öræfajökull. Mynd úr safni. Mynd: Þorvarður Árnason
Öræfajökull. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Soffía Auður fjallar einnig um „fagurfræði firringarinnar“ („aestetics of alienation“) í anda skrifa bandaríska bókmenntafræðingsins Rochelle Johnson í bók hennar Passions for Nature um bandarískan nítjándu aldar skáldskap og listir í bókinni. Rochelle greinir tvær andstæðar tilhneigingar í náttúrulýsingum í skáldskap og listum, annars vegar „lýsingar sem byggja á myndhverfingum, að náttúrunni sé ávallt lýst sem tákni fyrir eitthvað annað, fyrir mannlega eiginleika, framfarir sem og fágun og siðprýði.“  Meðal fulltrúa þessarar framsetningar nefnir Rochelle heimspekinginn Ralph Waldo Emerson. Hins vegar er svo sú tilhneiging, sem Rochelle kallar „mótfagurfræði,“ þar sem reynt er að forðast myndhverfingar og nálgast gildi náttúrunnar „í efnisleika hennar sjálfrar, í reynd einhvers konar milliliðalaus tjáskipti.“ Fulltrúar þessa síðarnefnda eru að mati Rochelle, rithöfundurinn Susan Fenimore Cooper og náttúruheimspekingurinn Henry David Thoreau, en bók hans Walden.Lífið í skóginum er nýkomin út í íslenskri þýðingu. Rochelle heldur því fram að með því að nota myndhverfingar þegar náttúrunni er lýst skapist fjarlægð gagnvart viðfangsefninu og að slíkt leiði til firringar, „ýti undir aðskilnað manns og náttúru.“ Vitaskuld er ekki hægt að lýsa náttúrunni frekar en öðru án þess að beita tungumálinu „en með því að forðast myndhverfingar [...] eigum við ef til möguleika á að nálgast hið óumræðilega í tjáskiptum manns og náttúru,“ segir Soffía Auður.

Skynjun lykilatriði í skoðun og lýsingu náttúrunnar

Þórbergur Þórðarson er góður fulltrúi þessarar nálgunar skálds að fyrirbærum náttúrunnar, að mati Soffíu. „Hann nemur merkingu sem hann gerir stöðugar tilraunir til að miðla í skrifum sínum, en hann gerir sér jafnframt gein fyrir að henni verður ekki miðlað til fulls í gegnum tungumálið og því vísar hann ítrekað til æðis, vitfirringar og leiðslukennds, andlegs ástands.“

Skynjun er með öðrum orðum lykilatriði í skoðun og lýsingu náttúrunnar og telur Soffía Auður að Þórbergur Þórðarson sé góður fulltrúi þessarar nálgunar skálds að fyrirbærum náttúrunnar. „Hann nemur merkingu sem hann gerir stöðugar tilraunir til að miðla í skrifum sínum, en hann gerir sér jafnframt gein fyrir að henni verður ekki miðlað til fulls í gegnum tungumálið og því vísar hann ítrekað til æðis, vitfirringar og leiðslukennds, andlegs ástands.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Breiðamerkurjökull. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Soffía Auður vitnar meðal annars í orð Þórbergs um Breiðamerkurjökul í bókinni Um lönd og lýði. Í þeirri bók er hvað eftir annað þeirri sýn varpað fram að „landið og fólkið, löndin og lýðirnir, eigi í gagnvirku sambandi og eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta. Ef fólkið bregst trúnaði við landið þarf það að sæta afleiðingum gjörða sinna.“ Þórbergur færir margvísleg rök fyrir afstöðu sinni, sem Soffía tíundar og bendir meðal annars á það hvernig Breiðamerkurjökull hafi um síðir tekið „að vaða niður sléttunar.”