Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfirmaður WHO er eþíópískur sérfræðingur í malaríu

Mynd: EPA-EFE / Keystone
Mikið mæðir nú á Alþjóðaheilbrigðsmálastofnuninni en hún er leidd af Eþíópíumanninum Tedros Adhanom. Vera Illugadóttir fór yfir feril Adhanoms í Morgunþætti Rásar 1 og 2 þar sem hún sagði síðasta heimsfaraldurinn sem stofnunin þurfti að takast á við, fyrir utan alnæmi sem er stöðugt viðfangsefni, hefði verið E-bólufaraldurinn í Vestur-Afríku 2014 og 2015. „Þá voru ýmsir sem töldu WHO ekki hafa staðið sig vel, gagnrýnendur sögðu að aðgerðaleysi stofnunarinnar hefði kostað mannslíf og stofnunin verið lömuð vegna niðurskurðar.“ Eftir það hafi hún verið endurskipulögð, sérstaklega með það að markmiði að hún gæti tekist á við stóran heimsfaraldur.

Tedros Adhanom var ráðinn framkvæmdastjóra WHO árið 2017 sem hluti af þessari endurskipulagningu og hann á langan feril að baki í stjórnmálum í Eþíópíu heilsufræðum. „Hann er fyrsti yfirmaður WHO sem er ekki læknismenntaður, en hann er menntaður í líffræði í Eþíópíu og nam svo ónæmis- og faraldsfræði. Hans sérhæfing er malaría sem hefur lengið leikið heimaland hans grátt,“ segir Vera. Adhanom hafi greint frá því í viðtölum að það að verða vitni að þeirri miklu þjáningu sem malarían olli í Eþíópíu hafi valdið því að hann valdi þessa starfsbraut, en bróðir hans lést ungur úr malaríu.

Eftir að hann lauk námi hóf hann störf í heilbrigðisráðuneytinu og var gerður heilbrigðisráðherra 2005, og gengdi því embætti til 2012. „Hann hlaut almennt mikið lof fyrir störf sín þar.“ Verkefnin voru ærin í Eþíópíu sem er fátækt land og heilbrigðiskerfið ekki nógu gott. Sjúkdómar eins og malaría, berklar og alnæmi herja á landsmenn og þar er lítið af læknum; eþíópískir læknar flytja oft til Vesturlanda að námi loknu og það er talið að það séu fleiri eþíópískir læknar í Chicago en í Eþíópíu. „Tedros náði hins vegar strax miklum árangri, tveirum árum eftir að hann tók við sem ráðherra voru helmingi færri malaríusmit og helmingi færri dauðsföll hennar vegna. Í valdatíð hans dró sömuleiðis mikið úr ungbarnadauða.“

Adhanom var skipaður utanríkisráðherra 2012 og gengdi því til 2016 þegar hann bauð sig fram til embættis framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. „Þær kosningar fóru fram 2017, þó var sá háttur hafður á að öll lönd sem áttu aðild að WHO, næstum öll í heimi, fengu eitt atkvæði um hver ætti að leiða stofnuninna. Adhanom var kjörinn með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, 133 af 185. Varð þar sem fyrsti Afríkubúinn til að gegna þessu embætti.“ Eitt af því sem hann hefur lagt áherslu á er að fá fleiri konur til starfa fyrir WHO. Hann var þó gagnrýndur fyrir að skipa Terezu Kasaevu úr rússneska heilbrigðisráðuneytinu yfir berklaáætlun stofnunarinnar, en rússnesk yfirvöld þykja hafa staðið sig illa í baráttunni gegn berklum.

Það vakti þó ennþá meiri athygli árið 2017 þegar Adhanom var nýskipaður að hann útnefndi Robert Mugabe, fyrrverandi einræðisherra Zimbabwe, góðgerðarsendiherra stofnunarinnar í barátunni gegn ýmsum sjúkdómum. „Hann þykir með verri einræðisherrum síðustu ára og held ég megi segja að hafi gjörsamlega rústað landi sínu á valdatíð sinni, auk þess ekki sérlega þekktur fyrir feril sinn í heilbrigðismálum. Einhverjir leiddu líkum að því að Mugabe hafi hjálpað Tedros í kosningabaráttu sinni, og hann hafi ætlað að launa honum greiðann með þessari skipun. Þetta var gagnrýnt mjög harkalega og eftir nokkra daga dró hann þessa skipun til baka.“

Vera segir að mikið mæði á Adhanom um þessar mundir en stofnuninni undir hans stjórn hafi verið hælt fyrir góða upplýsingagjöf. „Hann kemur reglulega fram á fundum og er yfirleitt ómyrkur í máli um hvað stofnunin vill að gert sé í faraldrinum. Ég held það megi fullyrða að við þekkjum betur WHO núna en fyrir nokkrum vikum. En það kemur náttúrulega ekki í ljós fyrr en fram líða stundir hvernig stofnunin hefur tekið á faraldrinum.“