Yfirmaður peningaþvættisdeildar DNB hætti í haust

18.11.2019 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: DNB.no
Roar Østby, yfirmaður peningaþvættisdeildar norska stórbankans DNB, sagði upp störfum í haust eftir að hafa starfað yfir deildinni í fimm ár. Norski bankinn hætti viðskiptum við Samherja í fyrra vegna hættu á peningaþvætti en Samherji hafði millifært 9,1 milljarð króna inn á reikning á Marshall eyjum.

Stundin greinir frá þessu í dag ásamt norska miðlinum Dagens Næringsliv.

Norskir miðlar tengja starfslokin við Samherjamálið. Talsmaður bankans segir það hins vegar ekki rétt, bankinn hafi farið í skipulagsbreytingar og Østby hafi sagt upp störfum sjálfum. Dagens Næringsliv gagnrýnir það að bankinn hafi ekki tilkynnt starfslok Østby enda hafi hann verið andlit bankans í baráttu gegn peningaþvætti. Bankinn hefur hins vegar gagnrýndur fyrir lélegt eftirlit með viðskiptavinum sínum út frá hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, meðal annars af norska fjármálaeftirlitinu. 

Fram kom í Samherjaskjölunum í síðustu viku að félagið Cape Cod FS, sem er skráð í skattaskjólinu Marshall eyjum í Kyrrahafinu, hafi verið notað til að greiða laun sjómanna Samherja í Afríku. Samtals hafi félög Samherja millifært 9,1 milljarð króna á reikning Cape Cod FS í gegn um DNB NOR. Í fyrra vaknaði óvissa um hvert raunverulegt eignarhald félagsins væri og þar af leiðandi var ákveðið hjá bankanum að loka á viðskiptin. Talsmaður bankans segir þó í samtali við Dagens Næringsliv að þrátt fyrir þessar aðgerðir hafi bankinn ekki vitað af Samherjamálinu fyrr en í síðustu viku. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi