Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Yfirmaður Náttúruminjasafns kom af fjöllum

26.08.2015 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: National Oceanic and Atmospheric - Wikimedia Commons
Forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands segist ekki hafa fengið upplýsingar um að menntamálaráðuneytið hefði ákveðið að beinagrind af steypireyði færi til Húsavíkur, en ekki á Náttúruminjasafnið. Hann kom af fjöllum þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag til að óska eftir viðtali.

Fréttastofa greindi frá því í hádegisfréttum að beinagrind steypireyðarinnar, sem rak á land á Skaga 2010, yrði til sýnis í Hvalasafninu á Húsavík. Það var ákveðið í kjölfar yfirlýsingar forsætisráðherra síðasta haust.

Húsnæðislaust höfuðsafnið fær ekki beinagrindina
Náttúruminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði náttúruminja samkvæmt lögum, sóttist einnig eftir því að fá að sýna beinin. Náttúruminjasafnið og fjárfestar, sem saman vilja setja upp náttúruminjasýningu í Perlunni í Reykjavík, bíða svara frá menntamálaráðherra um hvort sýningin getur orðið að veruleika.

Ráðuneytið tilkynnti Náttúrufræðistofnun Íslands um ákvörðunina á mánudag. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, segist ekki hafa fengið upplýsingar um þetta. Hann vildi kynna sér forsendur ákvörðunarinnar áður en hann tjáir sig um hana. 

Forsendurnar koma ekki fram í bréfinu
Í bréfi ráðuneytisins til forstjóra Náttúrufræðistofnunar, sem dagsett er á mánudag, er stofnuninni falið að semja við Hvalasafnið á Húsavík, „til ákveðins tíma“, um að varðveita og sýna beinagrindina. Í bréfinu kemur ekki fram hvers vegna ákveðið var að beinagrindin færi til Húsavíkur, en fréttastofa hefur óskað eftir viðtali við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra.

Hvalasafnið vill segja aðra sögu
Hvalasafnið sendi ráðuneytinu hugmyndir sínar um hvernig best væri að sýna beinagrindina. Í stað þess að hún verði hengd upp í heild verður hún lögð á gólfið, í umgjörð sem sýnir náttúrulega veðraða beinagrind í fjöru. Þannig á að segja aðra sögu um hvalinn en venjulega, þá um hvernig náttúrufyribrigði sem þetta liggur í fjörunni án afskipta mannsins en verður fyrir áhrifum veðurs og náttúru. Auk þess á að setja upp kynningarefni þar sem sagt yrði frá líffræði steypireyðarinnar og menningarlegu samhengi hennar.

Steypireyður sett í forgrunn í Lundúnum
Afsteypa af beinagrind risaeðla, af tegundinni Þórseðlubróðir, hefur verið til sýnis við aðalinngang breska náttúruminjasafnsins í Lundúnum, Natural History Museum, í 35 ár. Nú hafa forsvarsmenn safnsins hins vegar ákveðið að skipta henni út fyrir beinagrind steypireyðar árið 2017.

Michael Dixon, forstöðumaður safnsins, segir að þetta sé mikilvæg og nauðsynleg breyting. Steypireyður sé stærsta dýrategund sem vitað sé til að hafi lifað á jörðinni frá upphafi vega, og saga hennar minni fólk á hversu mikla ábyrgð maðurinn beri gagnvart jörðinni.

Höfuðsafnið ætti að varðveita svo merkilegan grip
Bergsveinn Þórsson, formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, segir að þar sem Náttúruminjasafn Íslands sé höfuðsafn á sviði náttúruminja ætti það að varðveita svo merkilegan grip sem beinagrindin sé. Miðað við núverandi aðstæður sé hins vegar óljóst hvort Náttúruminjasafnið geti sýnt og varðveitt beinagrindina. Hvalasafnið á Húsavík sé því góður kostur. Hann fagnar því að Hvalasafnið vilji taka á sig þessa ábyrgð.