Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfirlit um snjóflóðin: Enn er hætta á fleiri flóðum

14.01.2020 - 23:47
Frá vettvangi snjóflóða á Flateyri um miðjan janúar. - Mynd: Önundur Pálsson / Aðsend mynd
Þrjú stór snjóflóð, tvö á Flateyri og eitt í Súgandafirði á móts við Suðureyri, féllu með skömmu millibili um miðnætti í nótt. Unglingsstúlka lenti undir öðru flóðinu á Flateyri en var bjargað. Flóðin á Flateyri fóru yfir báða snjóflóðavarnargarðana.
  • Neðar í fréttinni birtust nýjustu fréttir jafnóðum og hægt að sjá yfir 120 færslur sem birtust frá miðnætti.

Flóðið í Súgandafirði var svo kröftugt að flóðbylgja fylgdi í kjölfarið. Varðskipið Þór flytur bjargir frá Ísafirði til Flateyrar. Fjöldahjálparstöðvar hafa verið settar upp fyrir íbúa svæða sem hafa verið rýmd vegna snjóflóðahættu.

Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var virkjuð og aðgerðarstjórn fyrir vestan kom saman.

Unglingsstúlkan, sem björgunarsveitarmenn björguðu úr snjóflóði á Flateyri í kvöld, var föst í snjóflóðinu í rúman hálftíma. Systkini hennar, 5 ára stúlka og 9 ára drengur, komust út úr húsinu ásamt móður sinni með því að klifra út um glugga.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fór snjóflóðið í gegnum húsið og út að stofuglugga sem vísar niður í bæ. Einhver snjór fór inn í herbergi drengsins og telpunnar en þau komust bæði til móður sinnar sem var inni í stofu. 

Hitt snjóflóðið á Flateyri eyðilagði alla báta í höfninni nema einn. Gísli Jón Kristjánsson, eigandi Öldu ÍS, sem var eina skipið sem bjargaðist í höfninni í Flateyri, segir í samtali við fréttastofu að það sé greinilegt að krafturinn í flóðinu hafi verið mikill. „Þetta er allur flotinn sem er þarna farinn og flotbryggjan líka. Þetta hefur verið gríðarlegt högg, það er mikill snjór í höfninni. Þetta er algjör hörmung.“

Flóðbylgjan af völdum snjóflóðsins í Súgandafirði olli ekki miklu tjóni. Sjór flæddi inn í eitt hús og aðeins upp á veg.

Fréttin var uppfærð 15. janúar klukkan 20.