Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Yfir þúsund með lögheimili í iðnaðarhúsnæði

Atvinnuhúsnæði með íbúðum. Mynd úr safni. - Mynd: RÚV / RÚV
Á höfuðborgarsvæðinu eru tæplega hundrað börn skráð með lögheimili í atvinnuhúsnæði. Ný athugun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sýnir að óleyfisbúseta hefur færst mjög í aukana. Í flestum tilvikum eru brunavarnir í lagi en það eru líka dæmi um að eigendur húsnæðis sýni skoðunarmönnum ógnandi tilburði og geri slökkviliðinu erfitt fyrir að tryggja öryggi íbúa. 

Í byrjun árs ákvað stjórn slökkviliðsins að kortleggja ólöglegar íbúðir í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við sveitarfélögin. Niðurstaðan liggur nú fyrir. „Núna fórum við í það sem við köllum kortlagningu, keyrðum um hverfin með byggingafulltrúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þá eru menn að leita eftir ummerkjum um búsetu, gardínum, blómum í glugga, ljósi að kvöldi til, hvort kveikt er á sjónvarpi. Svo fórum við líka inn á miðla eins og já.is og í lögheimilisskráninguna þannig að við bárum þetta tvennt saman," segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. Það að eiga lögheimili í húsnæði sem ætlað er iðnaðarstarfsemi brýtur gegn lögum um lögheimili. „Það eru náttúrulega ákveðnar reglur sem gilda um þetta en miðað við það sem við sjáum hér eru tölvert margir skráðir með lögheimili í atvinnuhúsnæði."

Í fyrsta sinn sem íbúafjöldi er áætlaður

Alls voru 1035 skráðir með lögheimili í atvinnuhúsnæði, þar af 94 börn. Þá voru 547 skráðir á já.is. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldi íbúa er áætlaður með þessum hætti. Síðastliðin ár hefur Slökkviliðið eingöngu skráð fjölda húsa þar sem búið er ólöglega en umfang búsetu í þeim getur verið breytilegt. Könnunin nú bendir til þess að þau séu tvöfalt fleiri en árið 2008, þegar síðast var gerð ítarleg könnun og allt húsnæði tekið út. Aukningin milli áranna 2016 og 2017 nemur 38%. „Það er ýmislegt sem skýrir þetta, skortur á íbúðahúsnæði, svo getur líka verið að skráningin hafi verið nákvæmari hjá okkur 2017 heldur en 2016 en ég held að grunnelementið í þessu sé bara aukning," segir Jón Viðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚv
Jón Viðar Matthíasson á vettvangi við Grettisgötu.

Næsta skref hjá slökkviliðinu er að kanna aðstæður í húsnæði þar sem talið er líklegt að eldvarnir séu slakar.

Þreföldun í Hafnarfirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafnarfjörður.

Fjölgun óleyfisbústaða er mest í Hafnarfirði, einkum í Hellnahverfi og við höfnina, samkvæmt heimildum Spegilsins. Fjöldi óleyfishúsa í Hafnarfirði hefur nær þrefaldast frá árinu 2008. Jón Viðar segir að hugsanlega séu önnur svæði að verða mettuð. „Svo getur líka verið bara meira framboð, kannski eldri iðnaðarhverfi, iðnaðarfyrirtækin eru að fara eitthvað annað."

„Skringilegt að sjá ný hús hönnuð með efri hæðum sem eiga eftir að enda í ólöglegri búsetu“

Höfði er það hverfi í Reykjavík þar sem er einna mest um ólöglega búsetu í atvinnuhúsnæði. Fólkið býr yfirleitt á annarri hæð, þar sem áður voru skrifstofur. „Ég held það sé mjög einfaldur mekanismi sem við erum að horfa á. Við erum með húsnæði sem af einhverjum ástæðum er ekki hentugt til nútímaatvinnustarfsemi. Það er húsnæði sem er illgerlegt að selja og erfitt að leigja. Á sama tíma er vöntun á íbúðahúsnæði og þetta tvennt smellur saman eins og járnstykki og segull. Þetta getur gerst bæði í eldra húsnæði og merkilegt nokk þá sjáum við þetta líka í nýlegu og nýju iðnaðar og atvinnuhúsnæði. Það er svona mín skoðun kannski að auðvitað á þetta sér eðlilegar sögulegar skýringar í eldri hverfum þar sem húsin voru byggð á sínum tíma með þörf fyrir efri hæðir. Síðan finnst mér sum ný hús kannski hugsuð og hönnuð að mér finnst svolítið skringilega með sömu efri hæðunum sem eiga eftir að enda í ólöglegri búsetu og eru þegar komnar undir hana."  Segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarna hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs.

Gera ráð fyrir að einhver sofi inni

Jón Viðar leggur áherslu á að markmið slökkviliðsins sé fyrst og fremst að bæta brunavarnir, ekki að láta loka ólöglegu atvinnuhúsnæði. Fólk sé ekki sent á götuna nema í ítrustu neyð, eftir að allir frestir eiganda til að gera úrbætur eru liðnir. Íbúar eru upplýstir um lokunina með góðum fyrirvara. Hann hvetur fólk sem býr í atvinnuhúsnæði til þess að leita til slökkviliðsins, óttist það að brunavarnir séu í ólagi. Þá hvetur hann þá sem búa í atvinnuhúsnæði til þess að nálgast límmiða sem líma má í glugga, með honum má merkja atvinnuhúsnæði þar sem fólk býr, ef eldur brýst út átta slökkviliðsmenn sig á því um leið og þeir koma á vettvang að þarna búi fólk. Það auðveldi rýmingu. Burt séð frá öllum límmiðum þá hefur slökkviliðið það reyndar fyrir reglu að gera ráð fyrir íbúum þegar útkall berst vegna eldsvoða í iðnaðarhúsnæði um nótt. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Ekki endilega verra í atvinnuhúsnæði

Jón Viðar leggur áherslu á að oftast séu brunavarnir í lagi. Það séu ekkert endilega verri brunavarnir í ólöglegu atvinnuhúsnæði en í íbúðarhúsi. Þá sé íkveikjuhætta ekki endilega meiri, ekki í þeim húsum þar sem ekki er lengur atvinnustarfsemi. Bjarni segir að algengasta vandamálið sem slökkviliðið verður vart við sé skortur á flóttaleiðum.„Þá eru bara inngangsdyr, inn á gang eða stiga og engin önnur leið út. Þetta gerir húsnæðið alvarlegt þó það sé eini ágallinn. Svo getur þetta verið mun verra. Við höfum til dæmis verið með húsnæði þar sem var ein flóttaleið, húsið var lélegt, gamalt stálgrindarhús, engin viti borin brunahólfun frá atvinnustarfseminni fyrir neðan, ekki virkt brunaviðvörunarkerfi, ekki út- og neyðarlýsing. Það var í raun og veru ekki neitt neitt en þetta var ósköp snyrtilegt."

Dæmi um að fólk hafi ekki aðgang að salerni

Upp á síðkastið hefur fólk streymt til landsins til þess að vinna, ýmist á eigin vegum eða fyrir starfsmannaleigur og þjónustufyrirtæki. Hluti þessa fólks býr við hrörlegan húsakost.  Fyrrum starfsmaður íslenskrar starfsmannaleigu sýndi Speglinum nýlega híbýli starfsfólks leigunnar. Húsið er á lista slökkviliðsins yfir ólöglegt atvinnuhúsnæði og þar eru 48 skráðir til heimilis. Snorri Birgisson, lögreglumaður, veit til þess að fólk hafi ekki aðgang að salerni. „Við höfum komið inn í mjög hrörlegar aðstæður þar sem fólk sefur á dýnu á steypugólfi með takmarkaðan aðgang að eldhúsi eða klósetti og brunavarnir í ólestri," segir Snorri. 

Jón Viðar segir að fyrir hrun hafi verið nokkuð um að fólk  svæfi á bedda í kaffistofum á verkstæðum. Slökkviliðið sjái minna af því núna en hann útilokar ekki að það tíðkist. „Við getum ekki verið alls staðar," segir hann. 

Eigendur hóta skoðanamönnum

Dæmi eru um að eigendur hafi hótað skoðanamönnum slökkviliðsins eða sýnt þeim ógnandi tilburði. Einu sinni hugðist slökkviliðið loka húsnæði þar sem brunavarnir voru ekki til staðar og eigandi hafði ekki orðið við kröfum um úrbætur.  Hann hafði líka bannað íbúum að líma upp límmiða sem gera slökkviliði ljóst að í húsinu sé búið. Íbúum var tilkynnt um lokunina með góðum fyrirvara. Eigandinn ákvað þá að taka málin í sínar hendur, lokaði sjálfur og útvegaði íbúunum annað húsnæði. Hvar fékk slökkviliðið ekki að vita og óljóst hvort brunavarnir þar voru í lagi.

Grunur um peningaþvætti

Spegillinn hefur heimildir fyrir því að stundum sé ráðist í flókna gjörninga til þess að fela eigendur þess húsnæðis sem leigt er út og að vaknað hafi grunur um hugsanlegt peningaþvætti í þessu samhengi.