Í byrjun árs ákvað stjórn slökkviliðsins að kortleggja ólöglegar íbúðir í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við sveitarfélögin. Niðurstaðan liggur nú fyrir. „Núna fórum við í það sem við köllum kortlagningu, keyrðum um hverfin með byggingafulltrúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þá eru menn að leita eftir ummerkjum um búsetu, gardínum, blómum í glugga, ljósi að kvöldi til, hvort kveikt er á sjónvarpi. Svo fórum við líka inn á miðla eins og já.is og í lögheimilisskráninguna þannig að við bárum þetta tvennt saman," segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. Það að eiga lögheimili í húsnæði sem ætlað er iðnaðarstarfsemi brýtur gegn lögum um lögheimili. „Það eru náttúrulega ákveðnar reglur sem gilda um þetta en miðað við það sem við sjáum hér eru tölvert margir skráðir með lögheimili í atvinnuhúsnæði."
Í fyrsta sinn sem íbúafjöldi er áætlaður
Alls voru 1035 skráðir með lögheimili í atvinnuhúsnæði, þar af 94 börn. Þá voru 547 skráðir á já.is. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldi íbúa er áætlaður með þessum hætti. Síðastliðin ár hefur Slökkviliðið eingöngu skráð fjölda húsa þar sem búið er ólöglega en umfang búsetu í þeim getur verið breytilegt. Könnunin nú bendir til þess að þau séu tvöfalt fleiri en árið 2008, þegar síðast var gerð ítarleg könnun og allt húsnæði tekið út. Aukningin milli áranna 2016 og 2017 nemur 38%. „Það er ýmislegt sem skýrir þetta, skortur á íbúðahúsnæði, svo getur líka verið að skráningin hafi verið nákvæmari hjá okkur 2017 heldur en 2016 en ég held að grunnelementið í þessu sé bara aukning," segir Jón Viðar.