Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfir fjórar milljónir flúið Venesúela

08.06.2019 - 07:34
Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia commons
Yfir fjórar milljónir manna hafa flúið Venesúela síðustu ár samkvæmt nýjustu heimildum Sameinuðu þjóðanna. Al Jazeera hefur eftir flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að fjöldinn hafi aukist um milljón síðan í nóvember. Mikil aukning varð þegar tugir ríkja viðurkenndu Juan Guaido, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem réttkjörinn forseta landsins í janúar.

Djúp efnahagskreppa og skaðræðis stjórnmálakreppa eru í Venesúela. Ríkið sem áður var eitt allra auðugasta ríki Suður-Ameríku er nú á heljarþröm undir stjórn Nicolas Maduro, forseta landsins. Mikill skortur er á helstu nauðsynjum í landinu, á borð við mat og lyf, og sjá því milljónir þann kost vænstan að flýja til ættingja í nágrannaríkjum. Sameinuðu þjóðirnar og IOM, alþjóðasamtök farandfólks, segja að styðja verði vel við þau ríki sem hafi tekið við flóttafólki. Sérstök þörf er í Kólumbíu og Perú, yfir 1,3 milljónir manna hafa flúið til Kólumbíu og hátt í 800 þúsund til Perú.

Yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er birt eftir að forseti Perú, Martin Vizcarra, tilkynnti að ríkið ætli að herða skilyrði fyrir móttöku flóttafólks frá Venesúela. Þeir sem koma þaðan verða að vera með vegabréf og áritun frá sendiráði Perú í Caracas, frá og með 15. þessa mánaðar.

Samninganefndir stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar settust til viðræðna í Ósló í maí, en komust ekki að niðurstöðu. Andstæðingar Maduros forseta, með Guaido í fararbroddi, eru með meirihluta á þingi. Guaido gegndi embætti þingforseta, og er af flestum ríkjum Vesturlanda talinn réttkjörinn forseti landsins. Forsetakosningar í fyrra, þar sem Maduro var endurkjörinn, eru af mörgum taldar ólögmætar. Stjórnarandstæðingar töldu svindlað á sér, og hundsuðu kosningarnar. Maduro nýtur stuðnings Rússlands, Kína, Tyrklands, Kúbu og fleiri ríkja. Samtök Ameríkuríkja hafa kallað eftir því að þau ríki sem styðja Maduro taki þátt í að finna lausn á kreppunni í landinu.