Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 40 snjóflóð um helgina og hætta eykst aftur í dag

13.01.2020 - 12:23
Ísafjörður Skutulsfjörður Vetur Tekið með dróna
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Norðanverðum Vestfjörðum. Snjóflóðahætta er að aukast á öðrum svæðum en ekki hefur verið lýst yfir óvissustigi þar. Yfir 40 snjóflóð féllu á laugardag og búist er við fleiri flóðum í hríðarveðri næstu daga.

Mikil snjóflóðahætta er á norðanverðum Vestfjörðum og utanverðum Tröllaskaga og metur Veðurstofa að nokkur hætta sé á Austfjörðum sem eykst svo á morgun.

Á laugardaginn féllu snjóflóð í grennd við byggð og yfir vegi en ekki hefur reynt á flóðvarnargarða við byggðarlög. Engin flóð hafa fallið í gær eða í dag.

Hætta eykst í dag

Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni, segir hættu aukast að nýju eftir því sem líður á daginn.

„Þetta veður sem gengur yfir landið núna, það er heilmikill snjór til fjalla. Heilmikill lausasnjór og þegar hvessir núna eftir hádegið þá eigum við von á því að skafrenningur aukist og þá skapist hugsanleg snjóflóðahætta nokkuð hratt. Þetta veður stendur svo áfram næstu daga þannig að við vörum almennt við snjóflóðahættu sem gæti verið að skapast til fjalla í þessu veðri.

Taka ákvörðun um rýmingu 

Opnum svæðum við sorpmóttökuna Funa á Ísafirði hefur verið lokað vegna snjóflóðahættu. Ákvörðun verður tekin um rýmingu atvinnuhúsnæðis eftir hádegi.

Tómas segir að brýnt sé að halda sig fjarri heiðum og fjalllendi þar sem hættan er mest. Mikilvægt sé að fylgjast vel með tilkynningum Vegagerðarinnar og vef Veðurstofu Íslands þar sem upplýsingar um snjóflóðahættu eru færðar inn í rauntíma.