Yfir 30 dáin og rúm 100.000 á hrakhólum vegna flóða

26.01.2020 - 03:43
Erlent · Hamfarir · Afríka · Madagaskar · Veður
epa01069823 Two young girls shelter from the rain as they wait for a ferry boat near the village of Nosy Varika on the eastern coast of Madagascar, 18 July 2007.  EPA/KIM LUDBROOK
 Mynd: epa
Yfirvöld á Madagaskar hafa staðfest 31 dauðsfall eftir nokkurra daga úrhelli í landinu norðvestanverðu. Fimmtán til viðbótar er saknað, segir í tilkynningu sem stjórnvöld sendu frá sér í gær og yfir 100.000 eru á hrakhólum vegna hamfaranna. Miklar rigningar hafa geisað á Madagaskar í liðinni viku og orsakað flóð á stórum svæðum, einkum í héruðunum Mitsinjo og Maevatanana á norðvesturodda eyríkisins.

 

Sex mánaða, árlegt rigningatímbilið á eyjunni er rétt hálfnað og hefur úrkoman verið óvenjumikil síðustu daga. Ár hafa flætt yfir bakka sína og sópað burt vegarköflum með þeim afleiðingum að ekki verður komist landleiðina til þeirra svæða sem verst hafa orðið úti.

Margir fjölfarnir vegir aðrir eru ófærir vegna rigninganna þótt þeir séu enn á sínum stað. Nokkur þorp og mikil flæmi ræktarlands eru meira og minna á kafi í vatni eftir að stífla nærri bænum Tanambe gaf sig.

Almannavarnir vara við því að flóð á láglendi, hrísgrjónaökrum og öðru ræktarlandi, ógni fæðuöryggi í landinu og valdi þar með hættu á útbreiddri vannæringu. Um leið og skortur fer að sverfa að er líka hætta á miklum verðhækkunum á brýnustu nauðþurftum.

Óveður síðustu daga og vikna hafa hrakið nær 110.000 manns frá heimilum sínum og hefur forsætisráðherrann, Christian Nitsay, lýst yfir neyðarástandi vegna flóðanna. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV