Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Yfir 130 látin af völdum kórónaveiru

29.01.2020 - 01:52
epa08174058 Officials wearing full protective gear work around a special ambulance outside a chartered flight, believed to be carrying Japanese nationals repatriated from Wuhan, at Haneda airport in Tokyo, Japan, 29 January 2020. Some 200 Japanese nationals were repatriated following the coronavirus outbreak in Wuhan, central China.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA BEST QUALITY AVAILABLE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nærri 6.000 tilfelli kórónaveirunnar sem á upptök sín í Kína eru nú staðfest í landinu. Heilbrigðisyfirvöld í landinu segja yfir 9.000 tilfelli til rannsóknar. Alls eru 132 látin af völdum veirunnar.

Bandaríkin og Japan sendu flugvélar eftir ríkisborgurum sínum í og við borgina Wuhan í Kína, þaðan sem veiran dreifðist. Um 200 Japanir voru um borð í flugvél sem flaug frá Wuhan til Tókýó. Heilbrigðisstarfsmenn voru um borð í vélinni. Þeir áttu að rannsaka farþegana áður en þeir gengu frá borði í morgun, en ekki stendur til að setja þá í einangrun. Svipaður fjöldi er um borð í flugvél á leið til Bandaríkjanna. Þar verða farþegarnir skoðaðir við lendingu, bæði til að vernda þá og aðra. Til stendur að flytja evrópska ríkisborgara í tveimur frönskum flugvélum í vikunni, og Suður-Kórea ætla r að gera það sama. Fjöldi ríkja hefur beðið fólk um að endurskoða ferðalög til Kína. 

Til þess að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar ákváðu kínversk yfirvöld að setja útgöngubann á þær rúmlega 50 milljónir sem búa í Wuhan og nágrenni. Þúsundir útlendinga eru þeirra á meðal, og eru nokkru ríki byrjuð að leggja drög að því að koma ríkisborgurum heim.

Kórónaveiran í algjörum forgangi

Alls hefur veiran nú greinst í 15 löndum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er komin í málið, en bandarísk yfirvöld krefjast þess að Kínverjar verði samvinnuþýðari.  Xi Jinping, forseti Kína, tók á móti Tedros Adhanom Ghebreyesus, formanni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, í Peking í dag. Á fundinum var samþykkt að senda sérfræðinga til Kína eins fljótt og auðið er. Tedros segir það í algjörum forgangi stofnunarinnar að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. 

Ástralskir vísindamenn kveðast búnir að einangra veiruna úr sjúklingi. Það er fyrsta skrefið í áttina að því að búa til bóluefni gegn veirunni. Vísindamennirnir segjast reiðubúnir að færa rannsóknarstofum víða um heim nauðsynlegar upplýsingar til að stöðva útbreiðslu veirunnar.