Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Yfir 100 vindmyllur og 300 megavött

05.05.2017 - 16:53
Mynd: Landsvirkjun / Landsvirkjun
Landsvirkjun telur að nýting vindorku sé raunhæfur kostur. Lagt er til að vindorkuver með allt að 40 vindmyllum verði í nýtingarflokki rammaáætlunar og annað vindorkuver við Búrfell verði í biðflokki. Alls er gert ráð fyrir að afl þessara tveggja vindorkuvera geti orðið um 300 megavött.

Það er óhætt að fullyrða að hér á landi hefur verið gert lítið af því að beisla vindorku þó að nóg sé af vindi. Athyglin hefur beinst að vatns- og jarðvarmaorku. Landsvirkjun reisti tvær vindmyllur 2012 við Búrfell eða á svæði sem kallað hefur verið Hafið. Þær voru gangsettar í febrúar 2013 og hafa mallað þar  frá þeim tíma og framleiða um 2 megavött. En það er ekki víst að látið verði staðar numið með þessum tveimur vindmyllum því kynntar hafa verið hugmyndir um vindmylluorkuver bæði við Blöndu og Búrfell. Samanlagt er verið að tala um að reisa  yfir 100 vindmyllur og að þær gætu framleitt allt að 300 megavött. Það svarar til tveggja Sigölduvirkjanna. Óli Grétar Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að ekki sé stefnt að því að byggja allar myllurnar í einu en vindorka á Íslandi sé raunhæfur kostur.

“Já, við lítum svo á að það séu mikil tækifæri í nýtingu vinds á Íslandi. Hún fer saman við nýtingu vatnsaflsins,“ segir Óli Grétar. Hann bendir á að þó að gert sé ráð fyrir nokkuð stórum vindorkuverum hafi ávallt verið miðað við að þau verði byggð upp í áföngum

Sjónmengun

 Það er annars vegar verið að tala um að koma upp vindorkuveri við Blönduvirkjun sem gengur undur nafninu Blöndulundur. Þar er gert ráð fyrirað yrðu vindmyllur sem gætu framleitt allt að 100 megavött og að fjöldi vindmyllanna gæti verið allt að fjörutíu. Hinn staðurinn er  milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar, Búrfellslundur. Fjöldi vindmylla gæti orðið allt að 67 og stærðin allt að 200 megavöttum. Fjöldi vindmyllanna fer eftir því hvað þær eru stórar. Miðað við núverandi tækni er stærð á þeim  frá 2,5 megavöttum upp í 3,5 megavatt. Þegar kemur að vindmyllum er einkum rætt um sjónmengun sem þær valda.

“ Helstu áhrifin af vinorkuverum er sjónmengun. Þess vegna þarf að passa upp á að raða vindmyllunum þannig og hafa langt á milli þeirra til að draga úr þessum áhrifum,“ segir Óli Grétar.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll
Óli Grétar Blöndal Sveinsson.

Í skýrslu um áhrif vindmylla við Blöndu á fuglalíf sem Arnór Þ. Sigfússon gerði 2014 kemst hann að þeirri niðurstöðu áhrifin verði aðallega á búsvæði og truflun á framkvæmdatíma. Hins vegar verði áhrif á fuglastofna vegna árekstra að líkindum lítil. Hallgrímskirkja er tæplega 45 metrar en vindmyllur þegar einn spaðinn vísar upp í loft geta verið 77 metrar upp í 135 metra.  Því hærri sem þær eru er framleiðslugeta þeirra meiri. 

Vindorkan að verða samkeppnisfær

Verð á vindmyllum fer lækkandi. Þegar myllurnar voru reistar 2012 við Búrfell var það mat manna að þær væru samkeppnishæfar við minni vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir.

„Miðað við verðið núna þá má segja að þetta sé á pari. Eins og staðan er í dag má segja að vindorkan sé að verða samkeppnishæf við aðrar virkjunarkosti,“ segir Óli Grétar. 

Veruleg áhrif á landslag og ferðaþjónustu

Þingsályktunartillaga umhverfisráðherra um rammaáætlun 3 er nú til umfjöllunar á Alþingi. Blöndulundur fór beint í nýtingarflokk en Búrfellslundur í biðflokk. Fyrir norðan eru líka í nýtingarflokki aðrir vatnsaflsvirkjunarkostir sem tengjast Blöndu sem þýðir að bæði þeir og vindorkan yrðu flutt með sömu línunum. Gallinn er sá að til að það geti orðið þyrfti að bæta við flutningsgetuna.  Undirbúningur er komin skammt á veg hvað snertir Blöndulundinn. Nú er verið að kanna hvernig vinur blæs og eftir er að gera umhverfismat.
Landvernd hefur gagnrýnt að Blöndulundur sé nálægt fyrirhuguðum þjóðgarði á miðhálendinu. Landsvirkjun hafði veðjað meira á vindorkuver við Búrfell og þar er búið að vinna umhverfismat. Í skýrslu Skipulagsstofnunar kemur þetta fram

Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að áformuð framkvæmd við 200 MW vindorkuver við Búrfell sé líkleg til að hafa veruleg áhrif á landslag og víðerni auk ferðaþjónustu og útivistar. 

Stofnunin bendir reyndar á að frekari rannsókna sé þörf. Þessi niðurstaða varð til þess að þessi kostur hafnaði í biðflokki í rammaáætlun. Þá hefur verið gagnrýnt að engin löggjöf er um vindorku. Landvernd bendir á þetta og segir í umsögn sinni um þingsályktunina:

Ekki er forsvaranlegt að raða neinum vindorkuverum í orkunýtingarflokk á meðan ekki er til stefna um nýtingu vindorku í landinu, þ.m.t. hvar er og hvar er ekki æskilegt að byggja slíkorkuver m.t.t. áhrifa á náttúru og umhverfi.
 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsvirkjun
Vindmyllugarður í Skotlandi

Hefðum verið að byrja á næstu 2 árum

Það er ekki ljóst hverju fram vindur um vindorkuna. 300 megavött er nokkuð stór virkjunaráform en ávallt hefur verið stefnt að því að skrefin verið tekin í áföngum. En hversu nálægar eru slíkar framkvæmdir.

„Ef við lítum til Blöndulundar þá er örugglega tiltölulega langt í nýtingu þar. Væntingar okkar voru auðvitað með Búrfellslund. Við vorum að hraða undirbúningi þar.  Ef við hefðum fengið jákvæðari niðurstöðu úr rammaáætlun þá hefði ég talið að við hefðum verið að hefja uppbyggingu þar á næstu tveimur árum,“ segir Óli Grétar.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV