Það er óhætt að fullyrða að hér á landi hefur verið gert lítið af því að beisla vindorku þó að nóg sé af vindi. Athyglin hefur beinst að vatns- og jarðvarmaorku. Landsvirkjun reisti tvær vindmyllur 2012 við Búrfell eða á svæði sem kallað hefur verið Hafið. Þær voru gangsettar í febrúar 2013 og hafa mallað þar frá þeim tíma og framleiða um 2 megavött. En það er ekki víst að látið verði staðar numið með þessum tveimur vindmyllum því kynntar hafa verið hugmyndir um vindmylluorkuver bæði við Blöndu og Búrfell. Samanlagt er verið að tala um að reisa yfir 100 vindmyllur og að þær gætu framleitt allt að 300 megavött. Það svarar til tveggja Sigölduvirkjanna. Óli Grétar Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að ekki sé stefnt að því að byggja allar myllurnar í einu en vindorka á Íslandi sé raunhæfur kostur.
“Já, við lítum svo á að það séu mikil tækifæri í nýtingu vinds á Íslandi. Hún fer saman við nýtingu vatnsaflsins,“ segir Óli Grétar. Hann bendir á að þó að gert sé ráð fyrir nokkuð stórum vindorkuverum hafi ávallt verið miðað við að þau verði byggð upp í áföngum
Sjónmengun
Það er annars vegar verið að tala um að koma upp vindorkuveri við Blönduvirkjun sem gengur undur nafninu Blöndulundur. Þar er gert ráð fyrirað yrðu vindmyllur sem gætu framleitt allt að 100 megavött og að fjöldi vindmyllanna gæti verið allt að fjörutíu. Hinn staðurinn er milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar, Búrfellslundur. Fjöldi vindmylla gæti orðið allt að 67 og stærðin allt að 200 megavöttum. Fjöldi vindmyllanna fer eftir því hvað þær eru stórar. Miðað við núverandi tækni er stærð á þeim frá 2,5 megavöttum upp í 3,5 megavatt. Þegar kemur að vindmyllum er einkum rætt um sjónmengun sem þær valda.
“ Helstu áhrifin af vinorkuverum er sjónmengun. Þess vegna þarf að passa upp á að raða vindmyllunum þannig og hafa langt á milli þeirra til að draga úr þessum áhrifum,“ segir Óli Grétar.