Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Winter Bay lagði úr höfn í dag

04.06.2015 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flutningaskipið Winter Bay lagði úr Hafnarfjarðarhöfn í dag með 1.700 tonn af frystu langreyðarkjöti en ferðinni er heitið til Japans. Kjötið er í eigu Hvals hf og féll til af dýrum veiddum í fyrrasumar. Þá voru veiddar 137 langreyðar.

Bilaður gír í skipinu hafði tafið brottför en gert er ráð fyrir að Ghana verði fyrsti viðkomustaður skipsins á leiðinni. Flutningaskipið Alma sigldi með tvöþúsund tonn af langreyðarkjöti til Japan í fyrra og var ferðum skipsins meðal annars mótmælt í Durban í Suður Afríku þar sem það átti að leggja að bryggju.

Í tilkynningu frá Alþjóðadýraverndunarsjóðnum segir að víða sé litið á milliríkjaverslum með hvalkjöt sem ólöglega verslun með smyglvarning sem fá ríki vilji koma nálægt. Langreyður er skráð í „útrýmingarhættu“ á rauða lista IUCN. Þar kemur hins vegar einnig fram að staða stofnsins í Norður-Atlantshafi sé góð. Ólíkt stöðu stofnsins í Kyrrahafi. 

Á vef atvinnuvegaráðuneytisins er að finna spurningar og svör um hvalveiðar Íslendinga. Þar kemur fram að stofninn í Norður-Atlantshafi sé hvorki viðkvæmur eða í útrýmingarhættu og er vísað í nýjasta mat vísindanefndar NAMMCO. Þá segir einnig að veiðar Íslendingar séu löglegar og sjálfbærar.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV