Will Ferrell setur Húsavík á hliðina

epa06442918 US actor Will Ferrell greets the crowd as he walks on the court following the men's first round match between Roger Federer of Switzerland and Aljaz Bedene of Slovenia at the Australian Open Grand Slam tennis tournament in Melbourne, Australia, 16 January 2018.  EPA-EFE/JOE CASTRO AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA

Will Ferrell setur Húsavík á hliðina

10.10.2019 - 10:31

Höfundar

Óhætt er að segja að bandaríski leikarinn Will Ferrell muni setja Húsavík á hliðina þegar tökur á nýjustu mynd hans um Eurovision-ævintýri Íslands fara þar fram. Íbúar bæjarins hafa sumir hverjir leigt út eignir sínar tímabundið til verkefnisins og húsvískir aukaleikarar ætla að standa vaktina í nokkrum senum. Sveitarstjórinn í Norðurþingi ætlar að standast þá freistingu að misbeita valdi sínu til að fá hlutverk í myndinni þótt tenging hans við Eurovision sé mjög sterk.

Á vef Norðurþings er birt nokkuð ítarleg tilkynning um hvað fólk má og hvað það má ekki. Til að mynda má ekki taka myndir af leikurum á tökustað né tökustöðum, bannað verður að fljúga drónum nálægt kvikmyndatökustöðum og íbúa er beðnir um að sýna umburðarlyndi og skilning þegar götum verður tímabundið lokað.

Húsavík verður Húsavík í myndinni og leikur nokkuð stórt hlutverk í myndinni. Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir í samtali við fréttastofu að fólk sé að týnast í bæinn og setja upp tökustaði. Mjög litlu sé verið að breyta í bænum, það séu aðallega götulokanir sem fólk þurfi að hafa í huga. „Við ætlum bara að sýna okkar margrómuðu gestrisni.“

Í tilkynningunni segir að tökurnar séu einstakur atburður og allar líkur séu á að þær hafi mikil og jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. „Því er mikið í húfi og mikilvægt að við íbúar stöndum saman og látum þetta verkefni ganga eins vel og nokkur kostur er.“

Þá kemur jafnframt fram að húsvískir aukaleikarar muni standa vaktina í nokkrum senum.  Kristján Þór er ekki í þeim hópi. „Ég mun alveg standast freistinguna um að misbeita valdi mínu til þess að fá hlutverk í þessari mynd og ætla ekki að sækjast eftir því,“ segir Kristján sem kemur nokkuð á óvart því tengsl hans við Eurovision eru nokkuð sterk, eiginkona hans, Guðrún Dís Emilsdóttir, var kynnir í keppninni hér heima. „Ég ætla bara að njóta ávaxta þessa verkefnis.“

Ísland verður í aðalhlutverki í myndinni en hún segir frá eyðimörkugöngu okkar og leitinni að fyrsta sigrinum.  Ísland er í hópi þeirra landa sem hafa aldrei unnið þessa keppni. Auk Ferrell fara þau Rachel McAdams og Pierce Brosnan með hlutverk í myndinni en Brosnan, frægastur fyrir að leika James Bond, á að leika myndarlegasta Íslendinginn.

Tengdar fréttir

Tónlist

Lovato leikur íslenska söngkonu í Eurovision

Kvikmyndir

Eyðimerkurganga Íslands í stóru hlutverki

Kvikmyndir

Will Ferrell leikur Íslending

Menningarefni

Leikur íslenska söngkonu í Eurovision-myndinni