Weinstein lýsti sjálfum sér sem gleymdum manni

16.12.2019 - 14:50
Harvey Weinstein, center, leaves court following a bail hearing, Friday, Dec. 6, 2019 in New York. (AP Photo/Mark Lennihan)
 Mynd: AP
Hópur bandarískra leikkvenna segir að bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann muni gleymast. Hann verði alltaf maðurinn sem misþyrmdi konum en sýndi aldrei neina iðrun. „Við neitum að leyfa kynferðisbrotamanni að endurskrifa sögu sína,“ segir í yfirlýsingu hópsins sem birtist á Twitter-síðu Time's Up-hreyfingarinnar.

Tilefni er viðtal sem birtist við Weinstein á vef New York Post um helgina. BBC greinir frá.

Þar lýsti Weinstein sér sem gleymdum manni og að enginn myndi eftir framlagi hans í þágu kvenna í kvikmyndagerð.  „Ég framleiddi fleiri kvikmyndir en nokkur annar þar sem konur voru leikstjórar og kvikmyndir sem fjölluðu um konur. Þetta var fyrir þrjátíu árum. Ég var fyrstur, ég var frumkvöðull,“ hefur New York Post eftir Weinstein. „Öll verk mín hafa gleymst,“ bætti Weinstein við. „Mér líður eins og gleymdum manni.“

Weinstein féllst á að ræða við blaðið til að sýna fram á að hann væri raunverulega veikur. Hann hefur stuðst við göngugrind að undanförnu vegna bakverkja eftir bílslys í ágúst síðastliðnum.  Blaðamenn New York Post segja að hann hafi virst algjörlega ómeðvitaður um þær ásakanir sem bornar hafa verið á hann. Hann stærði sig meðal annars af samningi sem hann gerði við leikkonuna Gwyneth Paltrow. Síðar kom í ljós að hún var aðalheimildarmaður New York Times þegar blaðið fletti ofan af Weinstein.

Hópur leikkvenna, meðal annars Ashley Judd og Rose McGowan, segja í yfirlýsingu sem birtist á Twitter-síðu Time's Up að Weinstein verði minnst vegna þess hugrekkis sem konur sýndu til að segja frá brotum hans.  Honum verði ekki leyft að endurskrifa sögu sína heldur verði hann alltaf maðurinn sem braut gegn konum en sýndi aldrei neina eftirsjá.

Greint var frá því síðustu viku að Weinstein hefði náð samkomulagi við lögmenn ríflega þrjátíu kvenna sem höfðuðu mál á hendur honum vegna kynferðisbrota. Samkomulagið kveður á um að Weinstein greiði konunum 25 milljónir Bandaríkjadala, ríflega þrjá milljarða króna, sem þær skipta á milli sín, gegn því að þær felli niður allar kærur á hendur honum. Tryggingarfélag hins gjaldþrota kvikmyndaframleiðslufyrirtækis Weinsteins, The Weinstein Company, borgar brúsann.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi