Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Warren ætlar í Hvíta húsið

Mynd með færslu
 Mynd:
Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður Demókrata fyrir Massachusetts, hefur nú formlega slegist í hóp þeirra sem vilja bjóða sig fram til forseta fyrir flokkinn á næsta ári. Warren ávarpaði stuðningsfólk sitt í bænum Lawrence í Massachusetts. Sagði hún Donald Trump, Bandaríkjaforseta, „nýjasta og ýktasta einkenni alls þess sem úrskeiðis hefur farið í Bandaríkjunum; afsprengi óréttláts kerfis sem styður hina ríku og valdamiklu en heldur öllum öðrum í svaðinu."

Þrátt fyrir nepju og nístingsfrost mættu nokkur þúsund manns til að hlýða á Warren, sem var prófessor í lögfræði við Harvard-háskóla og telst meðal vinstrisinnuðustu þingmanna Bandaríkjanna. Hún sagði harða og erfiða baráttu framundan. „Þetta er okkar mikilvægasta barátta, barátta fyrir Bandaríkjum þar sem draumar geta orðið að veruleika, Bandaríkjum sem virka fyrir alla," sagði Warren.

Kosningateymi Trumps fordæmir Warren

Kosningateymi Trumps brást við framboði hennar áður en hún tilkynnti það formlega, og var það fyrsta dæmið um slíkt úr þeim ranni. Brad Pascale, kosningastjóri forsetans, sagði bandarísku þjóðina munu „hafna óheiðarlegri kosningabaráttu og sósíalískum hugmyndum hennar [...] sem munu hækka skatta, fækka störfum og knésetja bandarísku millistéttina."
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV