Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

WAB air verður Play og í rauðu

05.11.2019 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flugfélagið Play, sem nokkrir fyrrverandi lykilstjórnendur WOW Air standa að, hefur sig til flugs í vetur. Félagið ætlar fyrst að vera með tvær vélar frá Airbus og fljúga til sex áfangastaða í Evrópu en strax næsta vor verður fjórum vélum bætt við og þá flogið til fjögurra borga í Norður-Ameríku. Fjármögnun félagsins er lokið, 80 prósent kemur erlendis frá en 20 prósent frá Íslandi.

Það var boðið upp á norðurljós og Hallgrímskirkju undir dramatískri tónlist þegar Play, nýtt íslensk lággjaldaflugfélag, leit dagsins ljós í Perlunni í morgun. Segja má að Play hafi tekið forystuna í kapphlaupinu um að fylla það skarð sem WOW Air skildi eftir sig.

Play hefur gengið undir nafninu WAB Air  og sagði Arnar Már Magnússon, sem verður forstjóri hins nýja flugfélags, það ánægjulegt að geta loks kynnt bæði litinn og nafnið á félaginu. Rauði liturinn hefði lykiltengingu við Ísland og íslenska náttúru - Play-nafnið skírskotaði til þess að fólk færi til útlanda að leika sér.

Ólíkt áðurnefndri Ballarin hafa forsvarsmenn Play haldið sig til hlés í höfuðstöðvum félagsins við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði. Vitað var að nokkrir lykilstjórnendur frá hinu gjaldþrota WOW kæmi að flugfélaginu.  Um tíma virtist Ballarin hafa náð afgerandi forskoti þegar hún blés til blaðamannafundar á Hótel Sögu og greindi frá áformum sínum um að hefja flug milli Íslands og Washington í október.

Þær áætlanir hafa ekki gengið eftir og því má segja að Play sé núna komið í lykilstöðu, bókunarvélin tilbúin og heimasíðan farin í loftið. 

Þegar Arnar Már hafði farið aðeins yfir forsöguna og þá vinnu sem hefur farið fram var sýnt stutt kynningarmyndband. „Ég vona að þið séuð öll með gæsahúð eins og ég,“ sagði Arnar þegar myndbandið hafði runnið sitt skeið. Hann sagði að Play vera fyrsta íslenska flugfélagið í áratugi sem yrði með flugrekstrarleyfi frá fyrsta degi. Því ferli væri að ljúka og félagið væri á lokametrunum með að fá leyfi. 

Arnar sagði fjármögnun lokið og það hefði alltaf verið skýrt að það yrði ekki farið af stað nema til staðar væri nægilegt fé. 80 prósent kemur erlendis frá en 20 prósent frá Íslandi.

Arnar Már vísaði því á bug að Simon Whitley Ryan, tengdasonur eins af stofnendum Ryan Air, kæmi að fjármögnun félagsins eins og orðrómar hafa verið um. Erlenda fjármagnið kæmi frá breskum fagfjárfestingasjóð án þess að það væri tilgreint nánar. „Við höfum lagt upp með að félagið þyrfti ríkulegt fé til að standast áskoranirnar til að byrja með. “ Arnar nefndi það jafnframt nokkrum sinnum á fundinum að mikil reynsla væri innan flugfélagsins, ekki bara frá WOW air heldur einnig frá öðrum íslenskum flugfélögum eins og Atlanta en einnig erlendis frá. 

Hann kynnti heimasíðu félagsins þar sem fram kemur að í boði verða þúsund fríar flugferðir fyrir heppna farþega en sala farmiða hefst í þessum mánuði.  Félagið ætlar að fljúga bæði til Ameríku og Evrópu. Í vetur verður þó eingöngu flogið til sex áfangastaða í Evrópu á tveimur Airbus-vélum úr 320 fjölskyldunni en strax næsta vor verður fjórum vélum bætt við og hefst þá flug til fjögurra  borga í Norður - Ameríku.   

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að gert sé ráð fyrir að flotinn vaxi í tíu vélar innan þriggja ára.