Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

VR hefur engar upplýsingar frá FME og LV

Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður VR segir félagið engar upplýsingar eða gögn fengið frá Fjármálaeftirlitinu í tengslum við útskiptingu fulltrúa VR í stjórn lífeyrissjóðsins og segir ámælisvert að eftirlitið hafi þannig sniðgengið málsaðila. VR hefur nú óskað eftir gögnum. 

Fjármálaeftirlitið telur að afturköllun umboðs fulltrúa VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna sé ekki gild því fulltrúaráð VR hafi tekið ákvörðunina en þá ákvörðun hafi stjórn VR átt að taka. Það sé í samræmi við gildandi samþykktir sjóðsins. Nýjar samþykktir sjóðsins taka gildi í haust. Stjórn Lífeyrissjóðsins situr enn. 

„Við erum búin að taka næstu skref, við erum búin að kalla eftir upplýsingum frá bæði lífeyrissjóðnum og síðan Fjármálaeftirlitinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Hann segir að VR hafi hvorki fengið neitt skriflegt frá Fjármálaeftirlitinu né lífeyrissjóðnum eða verið beðið um skýringar á afstöðu VR. Upplýsingar hafi VR úr fjölmiðlum. 

„Í sjálfu sér stendur okkar niðurstaða, stjórnarinnar og fulltrúaráðsins, hún stendur óhögguð. Maður hefur lesið það í gegnum fjölmiðla að Fjármálaeftirlitið hafi gefið í skyn að það hafi átt að vera stjórn VR, sem átti að afturkalla umboðið, en ekki fulltrúaráðið. Sem er mjög einkennilegt því eins og ég sagði hefur Fjármálaeftirlitið ekki kallað eftir skýringum frá okkur eða afstöðu um málið. Vegna þess að stjórn VR framseldi skipunaumboðið til fulltrúaráðsins, sem okkur er fullkomlega heimilt að gera, samkvæmt nýjum reglum sem við vinnum eftir og taka gildi hjá Lífeyrissjóðnum í haust. Þetta mál er mjög einkennilegt fyrir margra hluta sakir, eins og ég segi, að eftirlitsstofnun sem að prédikar faglega og góða stjórnarhætti og vinnubrögð skuli ganga fram með þeim hætti að sniðganga algerlega annan málsaðilann í málinu. Og það finnst mér vera mjög ámælisvert. Það eina sem ég get fullyrt á þessu stigi er að málinu er hvergi nærri lokið og við munum fylgja þessu vel eftir.“