Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vöruflutningar til og frá landinu ganga vel

21.03.2020 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Víglundsson - RÚV
Þótt flugfarþegum hafi fækkað snarlega síðustu vikur og miklar takmarkanir settar á ferðir fólks, þá hafa vöruflutningar með flugi gengið með eðlilegum hætti, segir Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.

Mikil eftirspurn eftir fiski í Bandaríkjunum
„Þeir hafa gengið vel. Við erum að fljúga til landsins á fragtvélum frá Evrópu og þær eru fullnýttar. Svo auðvitað nýtum við leiðakerfi Icelandair til landsins frá þeim stöðum sem við erum að fljúga. Auðvitað hefur ferðunum fækkað en af því að farþegarnir eru ekki mjög margir þessa dagana þá nýtum við allt það pláss sem skapast umfram það sem er í venjulegu árferði. Við höfum verið að flytja til dæmis mikið af fiski á markaði í Evrópu og sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar hefur eftirspurnin verið mjög mikil,“ segir Gunnar Már.

Flytja inn meira af lyfjum og lækningatækjum
Hann segir að innflutningur á vörum til landsins hafa gengið vel. „Já það eru auðvitað breytingar á vöruflokkum. Við sjáum sumar vörur detta niður og aðrar koma í meira magni. Það segir sig sjálft að við erum að flytja lyf og lækningatæki meira magni en í venjulegu árferði. Hefðbundnar vörur flytjum við  að mestu en það er breyting innan vöruflokka. Flæðið virðist svipað og öllu jöfnu,“ segir hann.

Vöruflutningar í forgangi
Gunnar segir að félagið hafi á dögunum flutt tuttugu tonn af fiski í einni ferð á breiðþotu til Bandaríkjanna, sem væri að öllu jöfnu ekki hægt þegar vélarnar eru fullar af farþegum. „Það er nú svo skrýtið að þrátt fyrir allt að þá eru flutningstölurnar það sem af er mánuði á svipuðu róli og þær hafa verið.“
Hann segir ekki hafa borið mikið á vandræðum eða töfum erlendis að fá þær vörur sem félagið flýgur með til landsins. „Nei það hefur ekki borið mikið á því, það eru einhver svæði þar sem ástandið er slæmt og útgöngubann í gildi. Þar er framleiðsla í lágmarki en öllu jöfnu gildir sú regla að það er forgangur á vöruflutninga og ríkisstjórnir landanna leggja mikla áherslu á að vöruflutningar gangi vel fyrir sig. Við finnum ekki fyrir neinu verulegu hökti á því. Í Bandaríkjunum þá erum við að koma öllum þeim fiski sem við þurfum að koma til kaupenda vandræðalaust. Auðvitað hefur neyslumynstrið breyst. Hvað fiskinn varðar þá eru veitingastaðirnir að draga eðlilega úr innkaupum því þeir eru meira og minna lokaðir. Hins vegar sjáum við að matvörubúðirnar eru að panta meira en nokkru sinni áður.“

Allar siglingaleiðir opnar
Samkvæmt upplýsingum frá Samskipi hafa vöruflutningar gengið eðlilega og allar siglingaleiðir opnaðar. Samskip hefur boðað tímabundna breytingu á siglingaáætlun frá 6. apríl. Þá fækkar félagið skipum í millilandasiglingum um eitt og sigla þá fjörur skip með vörur á áfangastaði á landsbyggðinni og í Evrópu.