Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Voru líklega með virka sprengju til sýnis í 40 ár

31.01.2020 - 16:43
Mynd: Jón Heiðar Allansson / Jón Heiðar Allansson
Sprengja sem var til sýnis á Byggðasafninu Görðum á Akranesi í 40 ár gæti mögulega verið virk. Jón Heiðar Allansson, forstöðumaður safnsins segir að hann hafi mörgum sinnum handfjatlað sprengjuna og gestum safnsins hafi gefist kostur á að snerta sprengjuna. Hann segir að liðsmenn Landhelgisgæslunnar hafi sótt sprengjuna í morgun.

Rætt var við Jón Heiðar Allansson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.

Síðast í gær var fjallað um það í fréttum að Byggðasafn Vestmannaeyja hafi á dögunum fundið fallbyssukúlu í kjallara safnsins, innan um aðra muni, og óvíst um aðhvort hún væri virk. 

Jón segir að kafari hafi gefið safninu sprengjuna sem hann hafi kafað eftir að flaki El Grillo. Skipinu var sökkt við Seyðisfjörð árið 1944. 

„Þegar ég var að sýna gestum og gangandi safnið þá tók maður oft þessa sprengju og var að handfjatla hana. Þegar maður hugsar til þess nú í dag þá hrýs manni svolítið hugur,“ segir Jón.

Erlendir gestir hafi sérstaklega spáð í hvort sprengjan gæti verið virk. „Við vorum ekkert að spá í það hér á safninu. Svo gæti hugsanlega verið með fleiri söfn að það geti verið sprengjur eða hvellhettur inni á söfnum. Við vorum til dæmis með fyrir nokkrum árum síðan tundurdufl inni á svæðinu sem gæslan gerði óvirkt. Nú er tundurduflið til sýnis í Hvalfirði í hermannasafninu þar.“

Landhelgisgæslan eigi eftir að opna sprengjuna eða gegnumlýsa til að kanna hvort hún sé virk. „En þeir töldu að hún væri virk,“ segir Jón. 

Aðspurður hvort hann ætli að fara fram á launahækkun eða jafnvel skaðabætur fyrir að vera í lífshættu í vinnunni hlær Jón. „Við höfum verið að gantast með þetta hérna en það eru kannski ekki allir jafn hressir og ég. Ég hef verið hér lengst og lengst verið að handfjatla þetta og þess vegna kannski get ég aðeins verið að gantast meira með þetta.“

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV