Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vopnin væntanlega kvödd fyrir helgi

16.06.2015 - 17:03
Mynd: RÚV / RÚV
Hríðskotabyssunum 250 sem Landhelgisgæslan og Ríkislögreglustjóri fengu frá Norska hernum verður væntanlega skilað í lok þessarar viku. Byssurnar hafa verið hér á landi í rúmt ár.

Það var DV sem upphaflega vakti athygli á að keyptar hefðu verið 200 hríðskotabyssur og til stæði að koma þeim fyrir í öllum lögreglubifreiðum landsins í þar tilgerðum kössum eða hólfum sem aðeins lögreglustjórinn gæti fyrirskipað að yrðu opnuð. Viðbrögð af hálfu ríkislögreglustjóra voru ekki mjög skýr til að byrja með. Í DV umfjölluninni vildi Jón Bjartmarz yfirlögregluþjón hjá embætti ríkislögreglustjóra ekki gefa upp kostnað vegna kaupanna né fjölda. Í viðtali við Spegilinn, saman dag og DV taldi að lögreglan væri að vopnast með leynd, upplýsti Jón Bartmarz að keyptar hefðu verið 100 til 150 byssur. Til stæði að dreifa þeim á lögregluembættin en lögreglustjórar í hverju umdæmi tækju ákvörðun um hvort þeir vildur byssur eða ekki.

Ekki gjöf
Hann nefndi reyndar í viðtalinu eða ekki væri ljóst hvort greiða þyrfti fyrir byssurnar og ef greiða þyrfti yrði um óverulega upphæð að ræða. Síðar kom í ljós að það var Landhelgisgæslan sem útvegaði byssurnar. Samdi við norska herinn um kaup á 250 MP5 hríðskotabyssum og var samningur undirritaður 17. desember 2013. Landhelgisgæslan átti að fá 100 stykki og ríkislögreglustjóri 150. Samkvæmt samningnum voru byssurnar keyptar á 625 þúsund norskar krónur sem var á þáverandi gengi um 11 og hálf milljón króna. Hins vegar kom í ljós að Landhelgisgæslan leit á viðskiptin sem gjöf enda hefðu fyrri samskipti verið þannig við norska herinn. Einhver upphæð væri sett á blað en ekkert þyrfti að borga. Um gjöf væri að ræða. Í viðtölum við talsmenn norska hersins kom annað í ljós. Ekki væri um gjöf að ræða heldur sölu. Íslendingum gæfist kostur á að greiða byssurnar með tveimur afborgunum. Það er skemmst frá því að segja að þegar í ljós kom að borga þyrfti fyrir byssurnar var þeim skilað enda væri engin fjárveiting fyrir slíkum kaupum. Lögreglan var búin að fá 35 stykki til að nota á æfingum. Þeim var í snatri skilað. Byssum var pakkað í þrjá kassa, þeir innsiglaðir og komið fyrir í geymslum Landhelgisgæslunnar sem uppfylla skilyrði til geymslu vopna. Þetta var 23. október. Þar hafa vopnið verið í geymslu síðan. Reyndar komu þau til landsins á vordögum í fyrra þannig að þau hafa verið hér í rúmt ár.

Meira um málið í Speglinum.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV