Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vopnaflutningaumsókn hafnað í dag

27.02.2018 - 22:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Íslensk stjórnvöld höfnuðu í dag umsókn flugfélagsins Atlanta um hergagnaflutninga til Sádi Arabíu. Fram kom í Kveik í sjónvarpinu kvöld að stjórnvöld hafi hingað til heimilað flutningana. Forsætisráðherra segir líta út fyrir að andi vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hafi ekki náð inn í framkvæmd stjórnvalda hér. 

Í Kveik kom fram að Atlanta væri undirverktaki ríkisflugfélags Sádi-Arabíu í vopnaflutningum þangað frá Slóvakíu og Búlgaríu og hafi undanfarin ár flogið 25 sinnum með vopn þessa leið með leyfi íslenskra stjórnvalda. Í Sádi-Arabíu taki ómerktir pallbílar við farminum og aki þeim á brott. Samkvæmt vopnaviðskiptasamningi Sameinuðu þjóðanna,  sem Ísland hefur fullgilt, er ríkjum óheimilt að heimila vopnaflutninga ef vopnin eru notuð gegn almenningi í stríðsátökum. 
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk að sjá innslagið úr Kveik fyrr í dag en hún þekkti ekki til málsins áður.
„Við erum búin að vera að fara yfir málið í stjórnkerfinu og það liggur fyrir að um þetta gildir ákveðið regluverk þ.e.a.s. það eru veittar undanþágur frá loftferðalögum fyrir hergagnaflutninga á borð við þessa. Þar gilda annars vegar þær lagalegu skuldbindingar sem við erum bundin af og hins vegar pólitísk sjónarmið þar sem skiptir auðvitað máli hver er endastöð vopnanna. Þannig að það liggur fyrir að þetta flugfélag, sem um ræðir, það hefur núna sótt um nýja undanþágu. Utanríkisráðuneytið hefur í dag veitt neikvæða umsögn um þá undanþágu í ljósi þessarrar stöðu“, segir Katrín. 
Og í ljósi þeirrar umsagnar hafi samgönguráðuneytið hafnað umsókninni í dag. En hafa íslensk stjórnvöld þá brotið lög hingað til eða þessar alþjóðlegu skuldbindingar?
„Nei, því þetta snýst annars vegar um okkar lagalegu skuldbindingar og hins vegar um pólitísk sjónarmið og anda vopnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Og þó að hann hafi ekki bein áhrif hér þá teljum við mikilvægt í ríkisstjórn Íslands að andi hans muni skila sér inn í endurskoðaða reglugerð og það vinnulag sem verður mótað í framhaldinu. Og það er auðvitað mikilvægt að við sýnum það að við viljum framfylgja þessum alþjóðasáttmála, sem við höfum undirritað.“
Sem að þið hafið þá ekki gert hingað til samkvæmt þessum upplýsingum sem fram komu í Kveik?
„Ja, þannig lítur út fyrir að þessi andi hafi ekki náð inn í framkvæmdina.“
Katrín segir að fleiri undanþágur verði ekki veittar fyrr en að lokinni endurskoðun reglugerðarinnar og eftir að nýtt verklag hafi verið mótað. 
„Ég held að í þessu máli þá skipti máli að þessar undanþágur, þær hafa almennt verið veittar eins og kom fram í þættinum nema í tilfelli flutninga táragasi til Venesúela þar sem undanþágan var ekki veitt í kjölfar skoðunar. Og ég held að það sem við lærum af þessu er að svona undanþágur á ekki að veita af sjálfu sér heldur þarf að fara fram skoðun á aðstæðum í hverju tilfelli.“