Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Vonum það besta en búumst við því versta“

28.01.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að verið sé fara yfir stöðuna hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, Landspítalanum og ferðaþjónustunni, vegna mögulegs kórónaveirusmits. Vonast sé eftir því besta en búist við því versta.

Heilbrigðisráðherra lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í morgun um viðbrögð vegna kórónaveirunnar. Hún segir að grannt sé fylgst með.

„Já, eðli málsins samkvæmt þegar komið er á þennan stað, við erum í raun og veru komin með óvissustig, þá hefur sóttvarnarlæknir samband við heilbrigðisráðherra á hverjum tíma. Nú er það þannig að það er tiltekinn hópur sem mun ráða ráðum sínum dag hvern og ég verð upplýst í kjölfarið á þeim fundi. Við höfum komið á því fyrirkomulagi, ég og sóttvarnarlæknir,“ segir Svandís.

En hvernig erum við í stakk búin að takast á við þetta?

„Við erum náttúrlega að fara yfir þetta á öllum vígstöðvum, ef svo má að orði komast, bæði í heilsugæslunni hér á höfuðborgarsvæðinu hér á höfuðborgarsvæðinu sem er náttúrlega mikilvægur snertipunktur, á Landspítala og auðvitað í tengslum líka við ferðaþjónustuna, þannig að það má eiginlega segja eins og vaninn er í svona málum að við vonum það besta, en búumst við því versta. Þannig að við verðum að vera vel undirbúin og mitt fólk er að undirbúa sig,“ segir hún.

Þegar Svandís er spurð að því hvort ástæða sé til að meta hvort bregðast þurfi við komu kínverskra ferðamanna segir hún stöðuna metna frá degi til dags. Sem kunnugt er hefur mikið mætt á Landspítalanum lengi.

„Framkvæmdastjórnin fer yfir stöðuna í dag á sérstökum fundi þannig að ég heyri í þeim eftir það en þarna er, eðli málsins samkvæmt, um að ræða að hluta til annars konar þjónustu heldur en þá sem mæðir mest á í bráðamóttökunni, þannig að það eru aðrir þættir sem þarna eru undir. En Landspítalinn er náttúrlega okkar þriðja stigs háskólasjúkrahús og hefur heldur betur sinnt mörgum, bæði einstaklingum og fjölskyldum um langt árabil og komist mjög vel frá því,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.