Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonskuveður og útlit fyrir víðtækar samgöngutruflanir

18.01.2020 - 15:44
Innlent · Ófærð · Óveður · veður
Frá Ísafirði í vondu veðri 13. jan 2019
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Appelsínugular og gular veðurviðvaranir um nær allt land taka gildi seint í kvöld og í nótt. Útlit er fyrir víðtækar samgöngutruflanir á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra upp úr miðnætti.

Spáð er suðaustan stormi eða roki með mikilli rigningu og asahláku á Breiðafirði. Appelsínugul viðvörun verður í gildi frá klukkan 23:00 í kvöld til 7 í fyrramálið. Búast má við miklum leysingum, auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Mikil hálka getur myndast þar sem rignir á klakabunka eða þjappaðan snjó og minnir Veðurstofan fólk á að mikilvægt sé að hreinsa frá niðurföllum til að forðast vatnstjón vegna rigningar og leysingavatns. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.

Ekkert ferðaveður á Vesturlandi

Á Vestfjörðum er spáð suðaustan stormi með mikilli rigningu eða slyddu. Appelsínugul viðvörun verður í gildi frá miðnætti til klukkan 10 í fyrramálið. Þar, líkt og á Breiðafirði, er búist við auknum leysingum og afrennsli og einnig vatnavöxtum í ám og lækjum og er fólk hvatt til að hreinsa frá niðurföllum. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.

Mynd með færslu
 Mynd: vedur.is

Mikilvægt að huga að lausamunum á Ströndum og Norðurlandi vestra

Spáð er sunnan stormi eða roki á Ströndum og Norðurlandi vestra og gildir appelsínugul viðvörun frá klukkan 2 í nótt til 10 í fyrramálið. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, 35 til 45 metrar á sekúndu. Víðtækar samgöngutruflanir er líklegar og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og bendir Veðurstofan fólki á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Varhugaverðar hviður við fjöll

Á Norðurlandi eystra er spáð sunna stormi og roki og verður appelsínugul viðvörun í gildi frá klukkan 3 í nótt til 9 í fyrramálið. Búast má við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, 35 til 45 metrar á sekúndu. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Hættulegar aðstæður fyrir ferðafólk á miðhálendinu

Á miðhálendinu verður appelsínu viðvörun í gildi frá miðnætti til klukkan 13:00. Þar er spáð sunnan roki með snjókomu, slyddu eða rigningu. Spáð er mjög hvössum vindstrengjum við fjöll, 35 til 45 metrum á sekúndu. Snjókoma og síðar slydda eða rigning. Búast má við mjög lélegu skyggni. Slagveður sem þetta getur skapað hættulegar aðstæður fyrir útivistafólk, segir á vef Veðurstofu Íslands. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir