Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonskuveður og ófærð á Austurlandi

28.02.2020 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Vonskuveður er nú á austanverðu landinu og mikil ófærð á flestum leiðum. Óvissustig er vegna snjóflóðahættu til fjalla og mikilli úrkomu spáð til hádegis á morgun.

Vegurinn um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði er lokaður. Þá er ófært um Hófaskarð, Sandvíkurheiði og Vatnsskarð og leiðirnar um Fjarðarheiði og Fagradal eru lokaðar.

Þæfingsfærð er á Jökuldal og í Jökulsárhlíð og þungfært á öllum leiðum út frá Egilsstöðum. Borgarfjarðarvegur er ófær á Úthéraði og ófært er inn Skriðdal. Breiðdalsheiði er ófær og lokað um Öxi. Snjóþekja og skafrenningur er með ströndinni á sunnanverðum Austfjörðum og ófært í Hamarsfirði.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á Austurlandi. Það er töluverður snjór og mikilli úrkomu spáð til hádegis á morgun. Ekki er talin hætta á snjóflóðum í byggð eins og er. Þá er gul veðurviðvörun fyrir allt Austanvert landið og gildir til miðnættis annaðkvöld.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV