Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Vonlaust að loka okkur af“ í heimsfaraldri

07.10.2019 - 09:32
Mynd: RÚV / RÚV
Það er óraunhæft að loka eyríkið Ísland af og gera það að athvarfi fyrir mannkyn, ef heimsfaraldur brýst út. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir. Hins vegar væri hægt að reyna að tefja og hefta útbreiðsluna.

Ný rannsókn í lýðheilsufræði við Otago-háskóla á Nýja-Sjálandi sem birt er í fræðiritinu Risk Analysis bendir til þess að Ísland sé þriðja besta landið á jörðinni til að gera að athvarfi fyrir mannkyn ef heimsfaraldur kemur upp, á eftir Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir hjá embætti landlæknis, segir að ástæða sé til að huga að þessum málum, enda komi heimsfaraldur reglulega upp.

„Alveg klárlega. Heimsfaraldrar hafa komið á svona 10-40 ára fresti á undanförnum öldum, getum við sagt. Þannig að við vitum að það kemur annar. Sá síðasti kom 2009. Þeir eru misjafnlega skæðir og við vitum ekkert hvernig þeir verða,“ sagði Þórólfur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Myndi aldrei takast

Þórólfur segir að spænska veikin árið 1918 sé sennilega skæðasta drepsótt sem gengið hefur yfir mannkynið. Talið sé að allt að 500 milljónir hafi sýkst, og að 30 til 50 milljónir hafi látist. Veikin barst hingað til lands og hér létust um 500 manns á stuttum tíma.

Þórólfur segir að mikil vinna hafi verið lögð í það hér á landi, að búa til viðbrgaðsáætlun gegn heimsfaraldri inflúensu.

„Og það eru þrjú atriði sem gilda þegar við erum að hugsa um hvernig sé hægt að stöðva útbreiðslu inflúensunnar. Það er í fyrsta lagi að tefja og hefta útbreiðsluna sjálfa.  Þar er einn möguleikinn að loka af, og einangra sýkta og loka af landið. Og það tókst 1918, með því að loka samgöngum hér innanlands, að hefta útbreiðsluna til annarra svæða. En ég held að það myndi aldrei takast í dag, það yrði alveg vonlaust með nútíma samgöngum og nútíma kröfum, nútíma aðflutningi á matvælum og öllum birgðum og vörum.“

Þá segir Þórólfur að önnur atriði sem lögð sé áhersla á séu bólusetning og að meðhöndla þá sem veikjast.

Aðspurður um möguleikann á því að gera Ísland að athvarfi, komi upp heimsfaraldur, segir Þórólfur að það sé óraunhæfur möguleiki.

„Ég held að það sé nánast vonlaust að loka okkur af þannig að það muni ekki berast neitt hingað. Það mun ekki ganga upp. Við þyrftum að gera það í mjög langan tíma vegna þess að svona inflúensa gengur í bylgjum í eitt, tvö ár eftir að hún byrjar. Ætlum við að loka okkur af í þrjú ár, hreinlega? Ég sé ekki fyrir mér að það geti gerst.“

Er fólk hrætt við þetta?

„Ég veit það ekki. Fólk vill ekki heyra eitthvað svona óþægilegt og auðvitað þarf að passa sig að vera ekki með einhvern hræðsluáróður og segja að heimurinn sé að farast. Það er ekki þannig. En það þarf samt að búa sig eins vel og hægt er undir þetta og hafa þetta í huga, geyma þetta aftarlega í huganum, en geta grafið þetta upp ef á þarf að halda.“