Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vongóður um að samningar takist fyrir verkföll

21.02.2020 - 18:55
BSRB · Innlent · kjaramál
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins, segist hafa raunhæfar væntingar um að samningar takist við BSRB-félögin á næstu tveimur vikum eða áður en verkföll hefjast. Hann segir að góður gangur sé í viðræðunum og breið samstaða sé það sem mestu máli skipti, um styttingu vinnutímans. Hann segir að miðað við stöðuna í viðræðunum sjái hann ekki tilefni til svo harkalegra aðgerða. Hann vonar að samningar takist áður en verkföll hefjast.

„Ég vona það innilega. Það vilja allir klára þessa samninga fljótt. Það er góður gangur í viðræðunum þessa dagana og það er breið samstaða um það sem mestu máli skiptir, sem er stytting vinnutímans,“ segir Sverrir.

Snýst nú meira um launaliðinn

Hann segir að samkomulag um styttingu vinnuvikunnar hjá dagvinnufólk liggi fyrir. Á undanförnum vikum hafi verið unnið að umfangsmiklum bótum á vaktavinnunni og sú vinna sé langt komin. Umræðurnar núna séu byrjaðar að snúast meira um launaliðinn og annað. Hann segist hafa trú á að samkomulag náist í friði ef næstu vikur verða nýttar vel.

„Og ég hef trú á því ef vilji er til, að þá náum við saman. Og það er styttra á milli en margur mætti halda.“ 

Ekkert því til fyrirstöðu að ljúka samningum

Sverrir hefur áður sagt að góður gangur sé í viðræðunum, gerði það í haust og í byrjun ársins þegar hann taldi samninga í höfn á næstu vikum. Hann segir að í haust hafi hugmyndin verið að færa vinnuna við vaktavinnuna yfir í starfshóp sem myndi klára málið á þessum vetri.

„Viðsemjendur okkar vildu það ekki og vildu ljúka þeirri vinnu. Það er mjög vandasamt verk sem hefur margar hliðar og krefst þátttöku margra. Nú er sú vinna að baki og það er ekkert því til fyrirstöðu að ljúka samningum,“ segir Sverrir.

En hver er staðan í deilunni? Viðræður um styttingu vinnuvikunnar eru mjög langt komnar en enn er deilt um hvernig reikna eigi yfirvinnu. Það er líka tekist á um breytingar á orlofi. En er launaliðurinn kominn á blað?

„Launaliðurinn er kominn á blað. Og það er rétt að geta þess að við höfum þegar lokið samningum við stóra hópa ríkisstarfsmanna.“

Búið sé að semja við rúmlega helming félagsmanna BHM. Samningum sé lokið við iðnaðarmenn og í vikunni hafi verið samið við félög innan Starfsgreinasambandsins.

Bráðum eins árs

Það eru bráðum 11 mánuðir frá því að samningar losnuðu og fljótlega geta þessar viðræður haldið upp á eins árs afmæli. En er það verjandi að þetta taki svo langan tíma?

„Þetta hefur vissulega tekið langan tíma og það vilja allir ljúka þessu. Við eigum í samtali um sameiginleg mál við breiðan hóp í mörgum bandalögum. Okkur auðnaðist ekki að fá sameiginlegt samtal á einu borði við alla um þessi sameiginlegu mál. Það hefur tafið fyrir. Það gekk í vaktavinnunni og það kom í ljós að sú vinna tók rúmlega þrjár vikur. Hún gekk mjög vel. Þetta hefur sannarlega tekið langan tíma og það er komin þreyta í mannskapinn. En nú er staðan að okkar mati sú að það er ekkert því til fyrirstöðu að sitja við og klára. Næstu tvær vikur verða drjúgar og örugglega setið fram á kvöld einhverja daga. Það er allt í lagi. Við ljúkum þessu vonandi innan tveggja vikna,“ segir Sverrir.

Ekki samið núna um jöfnun milli markaða

Ef ekki tekst að semja fyrir 9. mars hefjast verkföll BSRB. Bæði skammtímaverkföll og ótímabundin. Það er ljóst að þessi verkföll munu fljótlega hafa áhrif á almannaþjónustu. Ein krafa BRSB er jöfnun launa á milli markaða sem tengist breytingum á lífeyriskerfinu 2016.

„Þar var samið um að fara í vinnu til að meta laun á milli markaða og jafna þar sem hallaði á. Sú vinna hefur gengið vel og stendur enn yfir. Skuldbindingar opinberra launagreiðenda voru að fara í jöfnunina þegar niðurstaða starfshóps lægi fyrir. Hún liggur ekki fyrir. Vinnan gengur vel og að henni lokinni munu launagreiðendur efna þetta loforð. Nú þurfum við að tryggja framgang verkefnisins vel og mögulega styrkja starfshópinn. Komist hópurinn að niðurstöðu á samningstímanum er ekkert því til fyrirstöðu að hefja jöfnunina þegar þar að kemur,“ segir Sverrir.

Sjáum ekki tilefni til svo harkalegra aðgerða

Þetta þýðir að ekki stendur til að semja um jöfnun launa milli markaða í þessum kjarasamningum. Það er samt sem áður krafa BSRB og fleiri félaga að það verði gert. Sverrir sagði hér að ofan að góður gangur væri í viðræðunum og flest mál mjög langt komin. Skilur hann í því ljósi hvers vegna BRSB-félögin eru að boða til allharkalegra verkfalla?

„Miðað við stöðu viðræðnanna og þann góða gang sem hefur verið á undanförum vikum sjáum við ekki tilefni til svo harkalegra aðgerða. Og ég hef raunhæfar væntingar um það að við náum að ljúka þeim málum sem út af standa á næstu tveimur vikum,“ segir Sverrir.