Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vonast til að hálendisfrumvarp verði samþykkt í vor

23.01.2020 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segist vonast til að áform hans um hálendisþjóðgarð verði að veruleika áður en þingi verður slitið í vor þrátt fyrir að efasemdaraddir hafi heyrst innan úr stjórnarmeirihlutanum á Alþingi og víðar. Tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar spurðu hann út í ósætti í ríkisstjórninni um málið í óundirbúnum fyrirspurnum á þingi í morgun.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, vísaði til efasemdaradda sem hafa heyrst um tillögur að stofnun þjóðgarðs á hálendinu, bæði meðal þeirra sem málið snertir í heimabyggð og meðal stjórnarþingmanna. Hann spurði hvort að ráðherra teldi að sátt væri um tillögurnar.

Guðmundur Ingi sagði að eini fulltrúinn í nefnd sem vann að undirbúningi hálendisþjóðgarðs sem ekki skrifaði undir skýrslu væri fulltrúi Miðflokksins. Fulltrúar allra annarra flokka hefðu skrifað undir. „Það segir mér það að það er samstaða um þetta mál hér inni á þingi. Það er samstaða um að koma þessu máli áfram.“ Hann sagði málið myndi efla samkeppnishæfni Íslands, efla störf í byggðum landsins og ferðamennsku, og efla náttúruvernd. Guðmundur Ingi sagði að málið væri líka í stjórnarsáttmála og að hann ynni eftir honum.

„Ég legg áherslu á að þetta komist til umræðu og auðvitað vonast ég til að þetta klárist á vorþingi,“ sagði Guðmundur Ingi. Þó kynni málið að taka breytingum.

Gunnar Bragi spurði hvort að Guðmundur Ingi væri tilbúinn að leggja svo mikið undir að hann myndi víkja úr ríkisstjórn ef hann kæmi málinu ekki í gegn. Þeirri spurningu svaraði ráðherrann ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, vísaði til umræðu um skipulagsvald á miðhálendinu. Hún sagði samstarfsflokka Vinstri grænna hafa lagt áherslu á óskorað skipulagsvald einstakra sveitarfélaga. Hún spurði hvort að hugmyndir um miðhálendisþjóðgarð gengju upp ef sú leið væri farin. 

Guðmundur Ingi vísaði til reynslunnar af Vatnajökulsþjóðgarði. Hann sagði að skipulagið þar væri mjög lýðræðislegt og eiginlega einstakt. Þar fengju margir að koma að stefnumótun og ákvarðanatöku. Þetta væri haft til hliðsjónar við vinnu við fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð. Þó væri ýmsu bætt við, svo sem að fulltrúi bænda kæmi inn í starfið. Guðmundur Ingi sagði að eftir sem áður kæmu bæði ríki og sveitarfélög að því að ákveða hvaða ákvarðanir yrðu teknar á þjóðgarðssvæði. 

Hanna Katrín sagði að það væri augljós ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarð. Hún sagði að þessi ágreiningur sneri ekki aðeins að skipulagsmálum heldur líka orkumálum. Hún spurði hvort áform hans um að leggja fram þingmál um hálendisþjóðgarð, þjóðgarðastofnun og rammaáætlun fyrir lok næsta mánaðar væru raunhæf og hver varaáætlun hans væri.

Guðmundur Ingi sagði að þetta væru metnaðarfull áform en markmiðið væri að leggja öll málin fram fyrir lok mánaðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Hanna Katrín Friðriksson.