Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vonast eftir meira frelsi með NPA

24.03.2019 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er mikilvægt að vera frjáls og þurfa ekki að fara í rúmið klukkan hálf 10 á kvöldin. Þetta segir fyrsti Akureyringurinn til að fá notendastýrða persónulega aðstoð eftir að hún var lögfest. Þjónustan er að ryðja sér til rúms en meginþorri samninga er á höfuðborgarsvæðinu.

Sigrún María Óskarsdóttir, 24 ára sálfræðinemi, skrifaði nýlega undir samning við Akureyrarbæ um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, sem á að stuðla að sjálfstæðu lífi fólks með langvarandi stuðningsþarfir. „Það er ýmislegt sem ég á erfitt með að gera sjálf og ein. Eins og til dæmis að hátta mig og fara í búð,“ segir Sigrún María. 

Leiðinlegt að trufla áætlun starfsfólks

Nú ræður hún sjálf aðstoðarfólk og ákveður hvaða aðstoð er veitt, hvar og hvenær. Akureyrarbær hefur veitt Sigrúnu heimaþjónustu og þarf hún að laga sig að vöktum starfsfólks. „Eins og til dæmis þarf ég að fara upp í rúm á hverju kvöldi klukkan hálf 10. Það er frekar leiðinlegt sko, að þurfa alltaf að vera heima á þessum tíma og alltaf að passa að vera á ákveðnum tíma, svo ég sé ekki að trufla þeirra plan,“ segir Sigrún María. 

Megnið af samningum á höfuðborgarsvæðinu

Fyrstu samningarnir voru gerðir í tilraunaskyni fyrir nokkrum árum, en þjónustan var lögfest í fyrra og útfærð með reglugerð í lok árs. Í dag eru 77 NPA samningar í gildi á landinu, en aðeins fjórðungur þeirra er utan höfuðborgarsvæðisins. Enginn samningur er í gildi í mörgum sveitarfélögum á landsbyggðinni, til dæmis um allt Norðurland eystra, að Eyjafirði frátöldum, og á Austurlandi eins og það leggur sig. Stefnt er að því að fjölga samningum í skrefum og að þeir verði um 170 árið 2022. 

Mynd með færslu
 Mynd:
77 NPA samningar í gildi

„Ég veit um fullt af fólki sem er með NPA og lífið hefur orðið miklu betra eftir að þau fengu NPA,“ segir Sigrún. Næstu skref hjá henni er að auglýsa eftir starfsfólki og skipuleggja þjónustuna. Hún bindur miklar vonir við þetta nýja þjónustuform. „Bara að ég verði frjálsari í rauninni, að geta ráðið mér sjálf,“ segir Sigrún María. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigrún María Óskarsdóttir