Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonarneisti kviknaði þegar sá fyrsti varð laus

03.08.2019 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Felix Bjarnason
Níutíu björgunarsveitarmönnum og sjálfboðaliðum tókst að bjarga þrjátíu dýrum úr grindhvalavöðunni sem strandaði í fjörunni neðan við Útskálakirkju í Garði í gærkvöldi. Um tuttugu drápust og liggja hræ þeirra á víð og dreif um fjöruna, kýr, tarfar og nokkrir kálfar. Sum eru særð, virðast hafa barist mikið áður en yfir lauk. Aðgerðir stóðu yfir í alla nótt og sú sem stýrði þeim segir marga hafa verið orðna þreytta þegar loksins fór að flæða að. 

 

„Maður sá svona um þrjúleytið að  fólk orðið framlágt, búið að vera hér allt kvöldið og ekkert að koma sjór. Fólk hugsaði bara hvað gerist næst. Þá byrjaði að flæða að sem betur fer og fyrsta dýrið varð laust. Það kveikti neista í hjörtum allra hérna held ég bara. Svo fór maður að sjá þetta tikka inn alveg þar til í morgun þegar það var háflóð rétt um átta,“ Segir Elva Tryggvadóttir, sem stýrði aðgerðum í fjörunni í alla nótt.  Hvölunum var haldið rökum þar til flæddi að, þá var þeim hjálpað út á haf. 

Fylgdu hvölunum á leið

Björgunarsveitarmenn syntu með dýrunum út til að vísa þeim veginn. „Það þurfti í rauninni að fylgja þeim og það voru yfirleitt þrír til fjórir sem syntu með hverju dýri út. Þau voru mjög áttavillt, voru búin að liggja lengi á hliðinni og syntu jafnvel í hringi þannig að þau syntu í sameiningu hérna út, það var mjög skemmtilegt á að horfa,“ segir Elva.  

 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Felix Bjarnason
Hræ í fjörunni neðan við Útskálakirkju.

 

Voru líklega að elta makríl

Makríltorfa var skammt undan ströndinni og telur Edda Elísabet Magnúsdóttir, líffræðingur, segir þessa djúpsjávarhvali líklega hafa elt ætið upp á grynningar og tapað áttum. 

Margir virtu hræin fyrir sér

Ný viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skal við strandi hvala var virkjuð í fyrsta sinn en skammt er síðan svipað stór vaða strandaði í Löngufjörum á Snæfellsnesi, þau dýr fundust dauð nokkru eftir strandið. 

Suðurnesjamenn og ferðamenn á öllum aldri hafa í morgun gert sér ferð í fjöruna til að virða hræin fyrir sér og sú sýn sem við blasti tók mjög á suma. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Felix Bjarnason
Fólk virti hræin fyrir sér.

 

Verða líklega flutt

Fulltrúar Suðurnesjabæjar funda nú um hvað skuli gera við hræin en ljóst er að þau geta ekki legið áfram í fjörunni, svo skammt frá byggð. „Við vitum ekki hvort við reynum að urða hér eða fáum aðbúnað til að flytja hræin í burtu. Við eigum eftir að tala við sérfræðinga og fá ráðleggingar um hvað best er að gera,“ segir Bergný Jóna Sævarsdóttir, sviðsstjóri hjá Suðurnesjabæ. Líklega þurfi að flytja hræin tuttugu þar sem fjaran er þess eðlis að það yrði erfitt að urða þau þar.