Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vonar að úrskurðurinn leiði til endurupptöku

04.06.2019 - 11:44
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
„Fyrst og fremst erum við ánægð með niðurstöðuna, að hafa sigrað,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings og einn sakborninga í Al-Thani málinu svokallaða.

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði um það í morgun að Árni Kolbeinsson, hæstaréttardómari sem dæmdi í málinu, hafi ekki verið hlutlaus í málinu.

Hreiðar segir að úrskurðurinn séu jákvæð og ánægjuleg tíðindi og að hann auki líkurnar á því að sakborningar í Al-Thani málinu geti fengið málið endurupptekið fyrir íslenskum dómstólum.

„Það er næsta skref hjá okkur að lögmenn okkar greini dóminn og niðurstöðuna, en það er lang líklegasta niðurstaðan að við munum óska eftir endurupptöku,“ segir Hreiðar í samtali við fréttastofu.

Þrír stjórnendur Kaupþings ásamt Ólafi Ólafssyni, einum stærsta eiganda bankans, voru ákærðir fyrir umboðsvik, markaðsmisnotkun og hlutdeild í umboðssvikum. Stjórnendurnir þrír eru Hreiðar Már, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson.

Forsagan er sú að Kaupþing tilkynnti um kaup Al-Thani á hlut í bankanum þann 22. september 2008. Sheikh Mohammed bin Khalifa Al-Thani, einn valdamesti maður furstadæmisins Katar, hafði þá keypt ríflega fimm prósenta hlut í Kaupþing banka, fyrir 25 milljarða króna.

Rannsókn leiddi síðar í ljós að kaupin höfðu verið fjármögnuð af bankanum sjálfum til að sýna fram á betri stöðu en raunin var. Brotin voru sögð þaulskipulögð og viðamikil.

Hæstiréttur dæmdi í málinu í febrúar 2015 þar sem allir hinna ákærðu voru sakfelldir og dæmdir til fangelsisvistar. Sakborningarnir töldu að hallað hefði á þá við málsmeðferðina hér á Íslandi og hún hafi ekki verið rétt framkvæmd.

Þá hafi Árni verið vanhæfur sem dómari vegna fjölskyldutengsla en sonur hans starfaði hjá Kaupþingi fyrir fall bankans og sem starfsmaður í skilanefnd hans eftir hrun. Einnig var eiginkona Árna var varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins þegar Kaupþing var til rannsóknar.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV