Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vonar að stjórnarliðar hlusti á baklandið

26.08.2019 - 22:59
Mynd: RÚV / Kristinn Þeyr Magnússon
Stefnt er að því að kjósa um þriðja orkupakkann á Alþingi eftir viku, að loknu tveggja daga sumarþingi um málið. Miðflokkurinn hélt fjölmennan fund í kvöld þar sem formaðurinn batt vonir við að meirihlutinn hlustaði á álit baklandsins áður en gengið væri til atkvæðagreiðslu. Forystumenn flokkanna sem fréttastofa tók tali fyrr í dag voru sammála um að fátt nýtt hefði komið fram frá því að þingi var frestað. 

Um 200 manns mættu á fund Miðflokksins um þriðja orkupakkann í Garðabæ í kvöld. Þar fluttu erindi Birgir Örn Steingrímsson frá Orkunni okkar, Ingibjörg Sverrisdóttir, ferðaráðgjafi, Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins og formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann furðaði sig á orðum forystumanna flokkanna í fréttum sjónvarps fyrr í kvöld um að fátt nýtt hefði komið fram frá því að þingi var frestað.

„Ég skil ekki hvernig menn geta leyft sér að halda þessu fram. Það er búið að vera svo mikil umræða í sumar og margt komið í ljós. Ég las til dæmis upp í ræðu minni nýlega fréttatilkynningu Evrópusambandsins um fjórða orkupakkann og málaferli Evrópusambandsins gegn Belgíu vegna þess að Belgía væri ekki að innleiða þriðja orkupakkann rétt,“ sagði Sigmundur í beinni útsendingu í tíufréttum sjónvarps. „Þeir vildu áfram hafa eitthvað að segja um hvaða ákvarðanir væru teknar í orkumálum og hvaða tengingar væru milli annarra landa með raforku.“

Telur þú að það þurfi lengri tíma í umræður en þingstúfurinn gerir ráð fyrir? „Auðvitað hefði það verið æskilegt. En það er búið að semja um þann tíma sem fer í umræðuna. Svo nú bindi ég fyrst og fremst vonir við það að þingmenn stjórnarliðsins hlusti á baklandið í eigin flokkum. Hlusti á sína flokksmenn og áhyggjur þeirra. Ég vona að í stað þess að halda því fram að ekkert nýtt hafi komið í ljós, leyfi sér að skoða staðreyndirnar og taki afstöðu út frá því,“ segir Sigmundur jafnframt. 

Um 50 sérfræðingar komið fyrir utanríkismálanefnd

Alþingi kemur saman á miðvikudag og fimmtudag á svokölluðum þingstúf um þriðja orkupakkann. Stefnt er að því að kjósa um hann á mánudag. Þetta er hluti af samkomulagi sem formenn flokka á Alþingi komust að við þinglok.  

Síðustu vikur hafa bæði atvinnuveganefnd og utanríkismálanefnd komið saman til að fjalla enn frekar um málið. Um fimmtíu sérfræðingar eða álitsgjafar hafa komið fyrir utanríkismálanefnd vegna þriðja orkupakkans. Síðustu vikur hafa sex nýir álitsgjafar komið fyrir nefndina ásamt átta sem höfðu komið fyrir hana áður.  

Atvinnuveganefnd fékk til sín í síðustu viku þrjá fulltrúa frá Orkunni okkar. Áður hafði nefndin fengið til sín hátt í þrjátíu álitsgjafa. Samtals hafa nefndunum borist á níunda tug erinda og umsagna um málið. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn eru á móti innleiðingu þriðja orkupakkans. Formaður Miðflokksins sagði að með því að fresta atkvæðagreiðslu gæfist svigrúm til að ræða málið enn frekar í sumar.

Forysta flokkanna segja fátt nýtt komið fram

En hefur eitthvað nýtt komið fram síðan í vor? „Nei mér líður eins og leikara í Groundhog day. Hér erum við mætt aftur. Við höfum haldið nefndarfundi. Þangað hafa mætt að mörgu leyti sömu sérfræðingar aftur. Ef eitthvað er þá hafa rök okkar sem teljum að eigi að samþykkja þetta styrkst,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingar.

„Nei ekki nema það að það eru komnar víðari upplýsingar og þjóðin sjálf er að vakna til vitundar um alvarleika málsins. Þannig að það er það nýjasta í stöðunni,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

„Málið hefur auðvitað fengið aðeins meiri umræðu, bæði á vettvangi þingnefnda og annars staðar. En það hefur ekki orðið nein breyting á málinu og ekki komið meiri upplýsingar sem breyta niðurstöðu þess,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Heldurðu að það takist að klára umræður um þetta mál í vikunni? „Það er búið að semja um þetta og ég er nú svo bjartsýnn maður að trúa því að fólk standi við orð sín,“ segir Logi.

Verður orkupakkinn samþykktur næsta mánudag? „Já ég hef enga trú á örðu. Það liggur auðvitað fyrir að málið hefur notið yfirgnæfandi stuðnings hér í þinginu og ekkert sem breytir því,“ segir Birgir jafnframt.

„Því miður held ég að það stefni bara í það sem var áður ákveðið að meirihlutanum það er að þvinga þetta í gegnum þingið,“ segir Inga.