Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vonar að Glitnir láti staðar numið

04.02.2018 - 12:40
Mynd: Skjáskot / RÚV
Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar í lögbannsmálinu, segist vona að GlitnirHoldco láti staðar numið eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Lögbannið gæti þó varað í einhverja mánuði eftir dóminum verður áfrýjað til Landsréttar. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir lögbannsmál af þessu tagi taka alltof langan tíma. Fara þurfi yfir þetta ferli og skoða hvað þurfi að breyta í lögum.

Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði í vikunni kröfu Glitnis HoldCo um að staðfest yrði með dómi lögbann sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media í október.

Engu að síður er lögbannið enn við lýði, 110 dögum seinna. Og því verður ekki aflétt fyrr en áfrýjunarfresturinn rennur út.

Sigríður Rut segist vona að Glitnir Holdco láti núna staðar numið.  Verði málinu áfrýjað til Landsréttar geti lögbannið varað í einhverja mánuði. Hún telur að aðrar reglur eigi að gilda þegar tekist sé um lögbann. Það ætti einfaldlega að snúast um friðhelgi einkalífsins annars vegar og tjáningarfrelsið hins vegar.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, telur ágætt að hafa þetta dæmi fyrir augum. Það sé alltof langur tími sem þetta taki „og í tilviki af þessu tagi undrast maður hvað þetta hefur tekið langan tíma miðað við þær aðstæður sem eru uppi í málinu.“ Fara þurfi yfir þetta ferli og skoða hvað þurfi að breyta í lögum. „Það hljóta að vera almannahagsmunir að niðurstaðan í málum af þessu tagi liggi fyrir sem allra fyrst.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, veltir því fyrir sér af hverju þetta þurfi að taka svona langan tíma og hvort ekki komi til greina að sleppa sýslumannsembættunum og fara beint með lögbannsmál fyrir héraðsdómstól. „Það eru úrskurðir kveðnir upp í gæsluvarðhaldsmálum sólarhring eftir að menn eru handteknir,“ benti Helga Vala. 

Lögmenn væru því vanir að þurfa að ýta öllu sína til hliðar í sínum störfum og fara bara í eitthvað sem varir bara í 24 stundir. „Það þarf ekki hundrað daga til að klára svona mál.“ Hún kveðst hafa dæst aðeins þegar hún sá fréttir um að ríkisstjórnin vildi skipa nefnd varðandi fjölmiðla því stjórnmálamenn þurfi að vera aðeins skilvirkari og þetta mál væri ágætt dæmi. Undir það tók Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar. Það væri ekki heppilegt að skipa enn eina nefndina. „Mér finnst allt í lagi að fá einhverja sérfræðinga en það þarf að vera skýrt hvert markmiðið er og mér finnst það ekki skýrt í þessu máli.“

Helga Vala nefndi einnig málskostnað sem fjölmiðlar hafa þurft að standa straum af í meiðyrðamálum, jafnvel þótt þeir vinni slík mál. Þeir standi stundum eftir með fleiri hundrað þúsund króna málskostnað og það sé ótækt ef fjárstyrkir aðilar geti gert áhlaup á fjölmiðla aftur og aftur til að þagga niður í þeim af því að fjölmiðlarnir hafi ekki efni á því að verjast.

Sigríður Rut skaut þá að fjölmiðlar ynnu fleiri mál af þessu tagi en þeir töpuðu en sætu samt upp með kostnað. „Og það er auðvitað galið.“