Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vonar að Dynjandisheiði gangi betur en Teigsskógur

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Heilsársvegur um Dynjandisheiði á Vestfjörðum með tengingu í Bíldudal mun stórbæta samgöngur á Vestfjörðum. Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar gætu hins vegar verið umtalsverð, samkvæmt frummatsskýrslu Vegagerðarinnar.

Með Dýrafjarðargöngum verður með þessu í fyrsta sinn heilsársvegur yfir Dynjandisheiði sem styttir ferðatíma milli norður- og suðurfjarða um helming að vetri. Vegaöryggi á Vestfjörðum batnar einnig til muna.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir nýjan veg verða mikil búbót fyrir Vestfirðinga.

„Þetta mun gerbreyta í rauninni bara samgöngum á Vestfjörðum í heild sinni til frambúðar. Þetta er það sem við höfum barist fyrir, það sem við höfum kallað eftir í áratugi. Það er í rauninni bara, við þurfum að staldra við og líta á þetta sem fagnaðarefni,“ segir hann.

Í frummatsskýrslu Vegagerðarinnar segir að framkvæmdin muni hafa neikvæð umhverfisáhrif, þótt það velti nokkuð á leiðarvali. Neikvæðustu áhrifin yrðu af mögulegri þverun friðlandsins Vatnsfjarðar. Þá yrði rask í friðlöndum eins og náttúruvættinu Dynjanda, Geirþjófsfirði og mögulega öðrum svæðum sem njóta verndar samkvæmt lögum um verndun Breiðafjarðar.

Sporin hræða

Til harðra deilna kom vegna umhverfisáhrifa af Vestfjarðarvegi um Teigsskóg. Guðmundur vonar að það endurtaki sig ekki í þessu tilviki.

„Það er farið gaumgæfilega yfir þetta í frummatsskýrslu Vegagerðarinnar. Ég treysti okkar færustu sérfræðingum. En sporin hræða dálítið í þessum málum. En ég vona bara að okkur lánist í þessu, sem okkur lánaðist ekki í Teigsskógarmálinu, að skoða hlutina í heildarsamhengi,“ segir Guðmundur.

Frummatsskýrsla Vegagerðarinnar er nú til kynningar og er opið fyrir umsagnir og athugasemdir til 17. febrúar 2020. Frummatsskýrslan er skref í umhverfismati framkvæmdarinnar. Að henni lokinni verður gerð matsskýrsla sem Skipulagsstofnun gerir álit á. Að því ferli loknu verður hægt að sækja um leyfi við framkvæmdina.