Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vona enn að ráðherra leyfi hreindýrarækt

10.07.2015 - 09:58
Áhugamenn um hreindýrarækt, sem vildu kaupa 3% af íslenska stofninum og hefja ræktun í Vopnafirði, eru æfir yfir því að starfshópur lagðist gegn slíkri ræktun. Sjúkdómshætta er sögð helsta ástæðan.

Hreindýrarækt er stunduð víða og í Lapplandi hefur hún verið stunduð í mörg þúsund ár. Íslendingar sem stunda hreindýrarækt á Grænlandi vildu girða af tvær eyðijarðir í Vopnafirði til að hefja búskap með dýrum úr íslenska stofninum. „Ég tel mikla þörf fyrir þessa starfsemi því að möguleikarnir á að nota hreindýr í ferðaþjónustu eru mjög miklir. Eins og gert er í Skotlandi. Þar eru þeir með 150 hreindýr sem eru fulltamin svoleiðis að það er hægt að fara með þau í gönguferðir. Ég hef séð þau uppi á hæstu fjöllum þar í Skotlandi,“ segir Björn Magnússon, áhugamaður um hreindýrarækt.

Hann ásamt Stefáni Hrafni Magnússyni, hreindýrabónda á Grænlandi, sótti um leyfi til að fanga 200 dýr sem er aðeins einn sjöundi af veiðikvóta ársins í ár. Þeir hugðust fjölga dýrunum í þúsund á ellefu árum, nýta þau í kjötframleiðslu, ferðaþjónustu og í skinnaverkun. Starfshópur mælti hins vegar ekki með því að leyfa ræktun hér á landi ekki síst vegna hættu á að sjúkdómar breiðist út.

„Við fáum engan veginn séð það hvað það er á Íslandi sem gerir það að verkum að Ísland er eina landið í heiminum sem bannar hreindýrarækt. Það eru engin svör við því í skýrslunni. Það eru náttúrulega allsstaðar sjúkdómar og mikið meira um sjúkdóma erlendis og þar gengur þetta upp,“ segir Björn.

Björn ætlar að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við ráðherra og segist ekki úrkula vonar um að leyfi fáist. „Það er verið að flytja inn sennilega afurðir af um tvö þúsund hreindýrum til landsins á hverju ári,“ segir Björn.