Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Von á nýju greiðslukerfi Strætó snemma 2020

25.07.2019 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Nýtt greiðslukerfi hjá Strætó verður formlega boðið út fyrir lok sumars, segir Markús Vil­hjálms­son, sölu­stjóri fyrirtækisins. Stefnt er að því að nýja kerfið verði komið í gagnið á fyrri hluta næsta árs, segir hann enn fremur. Kerfið verði algjörlega snertilaust.

Kerfinu verði gjörbreytt

Með nýja kerfinu verður hægt að skanna kort eða svokallaðan QR-kóða til þess að greiða fyrir farið, segir hann. Þá sé stefnt á að hægt verði að nota snertilaus greiðslukort í sama tilgangi. Kerfið mun gjörbreytast úr frumstæðu greiðslukerfi og verða meira í takt við það sem tíðkast í nágrannalöndunum, segir Markús. 

Þetta auðveldi störf vagnstjóra og einfaldi viðskiptavinum að kaupa miða. Nýja kerfið geri viðskiptavinum kleift að hafa betri yfirsýn yfir notkun sína.

Markús segir að fölsun pappírsmiða, sem notaðir eru til að greiða fyrir far með strætó, sé stórt vandamál hjá þeim. Með nýja kerfinu hverfi það.

Lesa þurfi í aðstæður hverju sinni

Í dag er boðið upp á að nota strætó-app til þess að greiða fyrir far. Þegar það er nýtt þarf að tengjast neti. Strætó býður upp á net í vögnum sínum. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að þau hafi þó öðru hvoru spurnir af því að fólk nái ekki að tengjast netinu í vögnunum. 

Markús, sölustjóri Strætó, segir að fólk hafi aðeins aðgang að vögnunum af það greiðir fyrir farið. Hins vegar hafi það komið fyrir að til dæmis börn séu með net- eða batteríslausa síma. Þá þurfi að lesa í aðstæður hverju sinni. Hann segir að þau vilji leyfa barni sem lendi í slíku að njóta vafans og það fái að fara með vagninum.

Þau vilji ekki að börn séu skilin eftir úti. Það hafi þó komið upp tilvik þar sem vagnstjórar fari of bókstaflega eftir bókinni, segir Guðmundur, upplýsingafulltrúi Strætó. 

Þeir segja að fólk sé almennt ánægt með appið. Það að um 40 prósent miðakaupa fari nú fram í gegnum strætó-appið sé ágætis vísbending um það.