Vökult auga starfsmanns kom upp um skilríkjafals

28.01.2020 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / Karl New - RÚV
Það var vökulu auga starfsmanns Þjóðskrár Íslands að þakka að upp komst um umfangsmikið skilríkjafals í síðustu viku. Forstjóri Þjóðskrár segir starfsmenn oft þurfa að sýna mikið hugrekki í slíkum málum, sem koma upp reglulega.

Sjá einnig: Gátu ekki allir framvísað löglegum skilríkjum

Fréttastofa greindi frá því í síðustu viku að átta menn hefðu verið handteknir þar sem þeir voru við byggingavinnu í vesturbæ Reykjavíkur, eftir upp komst að þeir hefðu framvísað fölsuðum skilríkjum til að geta starfað á Íslandi. Sex þeirra eru frá Georgíu, einn frá Túrkmenistan og einn frá Tadsíkistan, en skilríkin fölsuðu gáfu til kynna að þeir væru frá löndum innan EES.

Ánægð með hugrekki starfsfólksins

Mennirnir voru þegar komnir með íslenska kennitölu og lögheimili en lögreglan komst á snoðir um málið eftir að starfsmaður Þjóðskrár fékk grunsemdir um að skilríkin sem þeir framvísuðu væru fölsuð. Líklegt þykir að mennirnir hafi fengið fölsuðu skilríkin á sama stað. 

„Það er frumkvæði starfsmanns hér. Og ég er afskaplega ánægð með það hugrekki hjá starfsmönnum stofnunarinnar að fara ofan í mál sem þegar er lokið,“ segir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár.

Margfalt fleiri mál eftir þjálfun

Fölsunin er í mörgun tilfellum mjög vönduð. Starfsfólk Þjóðskrár hefur frá því síðla árs 2017 fengið sérstaka þjálfun í að þekkja einkenni falsaðra skilríkja og hafa verið í nánu samstarfi við lögreglu og skilríkjasérfræðinga á Keflavíkurflugvelli. 

„Fram að þeim tíma voru tilvikin svona eitt til tvö á ári. Á árinu 2018 eru þau 45 og á árinu 2019 voru þau 37. Og nú þegar erum við komin með einhver mál á þessu ári, eins og hefur komið fram í fréttum,“ segir Margrét.

Vaxandi markaður fyrir fölsuð og stolin skilríki

Þjálfunin felst meðal annars í því að athuga hvort öryggistölur skilríkja stemmi, og hvort myndir og lýsingar passi við þann sem framvísar.

Margrét segir ljóst að markaður fyrir fölsuð eða stolin skilríki fari vaxandi. Málum þar sem þeim er framvísað hafi fjölgað hér á landi.

 „Já þeim hefur fjölgað en líka það að frumkvæðið er meira héðan og málin hefjast hér.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi