Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vök og Auður sigursælust

Mynd með færslu
 Mynd: - - Ístón

Vök og Auður sigursælust

11.03.2020 - 21:35

Höfundar

Uppskeruhátíð Íslensku tónlistarverðlaunanna fór fram í Hörpu í kvöld og voru Vök, Auður, Hildur Guðnadóttir og Grísalappalísa á meðal verðlaunahafa í ár. Hin ástsæla sópransöngkona Sigrún Hjálmtýsdóttir hlaut heiðursverðlaun Samtóns auk þess sem lokatónar kvöldsins voru slegnir Ragga Bjarna heitnum til heiðurs.  

Íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram í Hörpu í kvöld og voru samtals 39 verðlaun veitt á fjölbreyttri verðlaunaafhendingu þar sem verðlaun dreifðust á margar hendur. Margrét Rán Magnúsdóttir ásamt félögum hennar í hljómsveitinni Vök og tónlistarmaðurinn Auður unnu til flestra verðlauna eða þrenn hvor. Auður var valinn söngvari og flytjandi ársins auk þess sem lag hans, Enginn eins og þú, hlaut verðlaun sem popplag ársins. Vök átti poppplötu ársins, In the Dark, og Margrét Rán var einnig valin lagahöfundur og söngkona ársins. Það kom eflaust fáum á óvart að sigurganga Hildar Guðnadóttur héldi áfram í kvöld en tónlist hennar úr þáttunum Chernobyl hampaði tveimur verðlaunum.  Alla tilnefnda og verðlaunahafakvöldsins má sjá hér.

Mynd: RÚV / RÚV
Hildur Guðnadóttir gat ekki mætt en sendi kveðju frá Þýskalandi

Grínistinn og spekingurinn Bergur Ebbi fór á kostum sem kynnir kvöldsins og náði vel til áhorfenda. Ræður voru tilfinningaþrungnar og pólitískar á köflum. Margir þeirra sem tóku við verðlaunum þetta árið hvöttu til þess að hætt verði að senda flóttabörn úr landi í hættulegar aðstæður. Hljómsveitin Hatari kvaðst einnig spennt fyrir að koma fram í Ísrael aftur en það sögðust þeir þó ekki myndu gera fyrr en palenstínsk mannréttindi yrðu virt þar í landi. Auður þakkaði einnig fyrrum kærustu fyrir að hætta með sér og drengirnir í Grísalappalísu hvöttu þá sem eru með frestunaráráttu til að hætta því. Hildur Guðnadóttir sendi svo aðdáendum og vinum á Íslandi kveðju úr bíl sínum en hún var stödd í Þýskalandi þar sem hún býr og gat hún ekki mætt.

Skemmtiatriðin voru fjölbreytt og samkvæmt venju áttu það öll sameiginlegt að vera tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir utan eitt en þar var Ragga Bjarna minnst á hugljúfan hátt þegar Katla Vigdís og Arnar Guðjónsson fluttu lagið Barn. Oddur Arnþór og Salka Sól fluttu í kjölfarið Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig við undirleik Kjartans Valdemarssonar, Þorgríms Jónssonar og Magnús Trygvasonar Eliassen. Úr hópi tilnefndra komu fram Lára Rúnarsdóttir ásamt hljómsveit og strengjaleikurum, Hatari ásamt GDRN og kór, Siggi String Quartet, tríó Inga Bjarna Skúlasonar og Between Mountains auk þess sem drengirnir í Grísalappalísu opnuðu kvöldið með fjörugu tónlistaratriði. Fór sveitin einnig heim með tvenn verðlaun. Plata þeirra, og jafnframt svanasöngur, Týnda Rásin var kosin rokkplata ársins. Auk þess fengu textasmiðir sveitarinnar Baldur Baldursson og Gunnar Ragnarsson verðlaun fyrir textasmíði ársins. 

Rokklag ársins kemur frá Álftanesi en það var lagið Fyrsta ástin með spútniksveitinni Hipsumhaps. Raftónlistarplata ársins var svo platan Happy Earthday með Bjarka en lag ársins í raftónlistargeiranum er með Sykri, lag þeirra Svefneyjar. Plata árins í hipp-hopptónlist er með einum reynslumesta rappara landins, Cell7, og nefnist platan Is anybody listening? Lag ársins í rappi var hinsvegar lag Flona sem nefnist Falskar ástir. 

Mynd: RÚV / RÚV
Hatari og GDRN léku saman nokkuð óhuggulega vögguvísu

Varla er hægt að hugsa um tónlistarárið 2019 án þess að leiða hugann að þátttöku Hatara í Eurovision. Gjörningurinn sá var valinn tónlistarviðburður ársins á íslensku tónlistarverðlaununum og segir í umsögn dómnefndar að hárbeitt ádeilan hafi skilað sér í stórgóðum flutningi lagsins Hatrið mun sigra sem vakti athygli um allan heim. Sveitin hlaut líka önnur verðlaun á hátíðinni fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Hatrið mun sigra í leikstjórn Baldvins Vernharðssonar og Klemens Hannigan.

Í djass og blúsdeildinni reyndist mikil gróska í ár og hefur fjöldi innsendinga aldrei verið meiri. Tómas R. Einarsson hlaut verðlaun fyrir djass- og blúsplötu ársins fyrir plötuna Gangandi Bassi sem þykir fanga afslappað andrúmsloft Kúbu þar sem tónmál sveiflunnar og latíntónlistar ganga hönd í hönd. Tónverk ársins í djass- og blúsflokki var Avi eftir djassleikarann Andrés Þór. Í þeirri angurværu ballöðu fær gítarinn að njóta sín.

Hljómsveitin ADHD hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins í flokki hópa en hún hefur notið mikilla vinsælda bæði innan og utan landsteinanna upp á síðkastið. Einstaklingsflytjandi ársins var hinsvegar Sunna Gunnlaugsdóttir djasspíanisti, tónskáld og tónleikahaldari. Hún lék fjölda tónleika erlendis og hér á landi á árinu. Lagahöfundur ársins var valinn Einar Scheving en plata hans, Su Casa, þótti mynda sterka heildarmynd. Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur var valinn tónlistarviðburður ársins sem þótti umfangsmikil og vel útfærð. Sveitin lék á fjölda tónleika og tókst á við mörg ólík og krefjandi verkefni. 

Í sígildri og samtímatónlist var Concurrence með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar valin plata ársins. Hún þykir sýna margbreytileika íslenskrar samtímatónlistar í sinni bestu mynd. Flutningur Sinfóníuhljómsveitarinnar þykir fyrsta flokks og sérstaka athygli vekur upptökustjórnin sem er sögð framsækin og metnaðarfull.

Crevace, konsert fyrir flautu og fagott eftir Pál Ragnar Pálsson var valið tónverk ársins. Þar fléttar Páll saman tveimur djörfum einleikspörtum við framsækin og hugvitssöm hljómsveitarskrif. Tónlistarsviðburður ársins var valin Hljóðön - Sýning tónlistar sem flutt var í Hafnarborg en hún þótti spennandi og frumleg með áhrifaríkum upphafstónleikum þar sem vel var unnið með samspil tónlistar og rými. Myrkir músíkdagar hrepptu svo hnossið sem tónlistarhátíð ársins úr flokki hátíða en þóttu hún sérstaklega glæsileg í fyrra og sýna fjölbreytni nýsköpunar í íslenskri tónlist.

Tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga var valinn Bjarni Frímann Bjarnason sem þótti sýna einstaka hæfni sem listrænn stjórnandi í störfum fyrir Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands á liðnu ári. Elektra Ensemble hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins úr flokki tónlistarhópa en hópurinn hefur í áratug verið eitt af flaggskipum íslenskrar samtímatónlistar.

Söngkona ársins er Dísella Lárusdóttir sem vakti sérstaka athygli á árinu fyrir afburða frammistöu á sviði Metropolitan óperunnar í New York þar sem hún fór með hlutverk Tye drottningar í óperunni Akhnaten eftir Philip Glass. Söngvari ársins er Benedikt Kristjánsson en flutningur hans á Jóhannesarpassíu Bachs vakti mikla athygli og hrifningu erlendis á árinu. Hann gaf einsöngsplötu með íslenskum þjóðlögum og sönglögum eftir Schubert.

Í flokknum Önnur tónlist voru verðlaunahafar úr röðum höfunda kvikmynda- og leikhústónleikar auk þjóðlaga- og heimstónlistarhöfunda. Þar fékk Hildur Guðnadóttir verðlaun fyrir tónlistina úr Chernobyl sem fyrr segir. Hildur og Sam Slater fengu einnig verðlaun fyrir upptökustjórn ársins fyrir hljóðmynd þáttanna sem að sögn dómnefndar á fáa sína líka í tónlistarsögunni. 

Kristín Anna Valtísdóttir vann einnig til tveggja verðlauna í Opna flokkinum. Plata hennar I must be the devil var valin plata ársins og var henni lýst sem hreinasta galdri í umsögn dómnefndar. Umslagahönnun sömu plötu heillaði einnig g var það valið plötuumslag ársins og var það hannað af Ragnari Helga Ólafssyni og Ara Magg. Fyrsta plata Ástu, Sykurbað, lét ekki mikið fyrir sér fara á árinu en hún hlaut verðlau fyrir plötu ársins í flokki þjóðlaga- og heimstónlistar fyrir frumraun sína sem þótti einstaklega heillandi. Loks hlaut Lára Rúnarsdóttir verðlaun fyrir lag ársins í sama flokki fyrir lagið Altari. Lagið flutti Lára á hátíðinni ásamt hljómsveit sinni. 

Mynd: RÚV / RÚV
Diddú tók við heiðursverðlaunum

Björtustu vonirnar 

Þrenn verðlaun voru veitt björtum vonum framtíðarinnar. Í djassi og blús var það píanóleikarinn Ingi Bjarni Skúlason sem hlaut nafnbótina. Hann er flinkur píanóleikari sem þykir leitandi tónsmiður og afar skapandi í nálgun sinni. Á plötunni Tenging sem kom út á síðasta ári leiðir hann kvintett og sýnir afdráttarlaust hve mikið vald hann hefur á forminu.

Í flokki sígildrar- og samtímatónlistar var Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir tónskáld valin bjartasta vonin. Hún þykir vera eitt efnilegasta tónkáld landsins og hefur hún notið vaxandi athygli á undanförnum misserum. Meðal þeirra sem frumfluttu verk eftir hana á árinu eru Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og Strokkkvartettinn Siggi. Verkið O var tilnefnt á Alþjóða tónskáldaþingið. 

Bjartasta vonin í poppi, rokki, rappi og raftónlist var tilnefnd af starfsfólki Rásar tvö eins og undanfarin ár. Kosning fór svo fram á vef RÚV og í ár var það Hipsumhaps sem bar sigur úr bítum. Sveitin hefur náð miklum vinsældum fyrir frumlega laga- og textasmíð. Lög þeirra Lífið sem mig langar í og Fyrsta ástin voru á meðal mest leiknu laga í útvarpi á liðnu ári. 

Það er Samtónn sem stendur að baki Íslensku tónlistarverðlaununum en að baki Samtóni standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands. Markmið Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum íslenskra tónlistarmanna og fagaðila, styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa. Samtónn kemur fram sameiginlega fyrir hönd íslenskra rétthafa og tónlistarfólks. Stjórn Íslensku tónlistarverðlaunanna skipa Margrét Eir Hönnudóttir, Kristján Freyr Halldórsson og Jóhann Ágúst Jóhannsson.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Diddú hlýtur heiðursverðlaun Samtóns

Popptónlist

Kraftmikil vögguvísa Hatara og GDRN

Tónlist

Íslensku tónlistarverðlaunin afhent