Varla er hægt að hugsa um tónlistarárið 2019 án þess að leiða hugann að þátttöku Hatara í Eurovision. Gjörningurinn sá var valinn tónlistarviðburður ársins á íslensku tónlistarverðlaununum og segir í umsögn dómnefndar að hárbeitt ádeilan hafi skilað sér í stórgóðum flutningi lagsins Hatrið mun sigra sem vakti athygli um allan heim. Sveitin hlaut líka önnur verðlaun á hátíðinni fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Hatrið mun sigra í leikstjórn Baldvins Vernharðssonar og Klemens Hannigan.
Í djass og blúsdeildinni reyndist mikil gróska í ár og hefur fjöldi innsendinga aldrei verið meiri. Tómas R. Einarsson hlaut verðlaun fyrir djass- og blúsplötu ársins fyrir plötuna Gangandi Bassi sem þykir fanga afslappað andrúmsloft Kúbu þar sem tónmál sveiflunnar og latíntónlistar ganga hönd í hönd. Tónverk ársins í djass- og blúsflokki var Avi eftir djassleikarann Andrés Þór. Í þeirri angurværu ballöðu fær gítarinn að njóta sín.
Hljómsveitin ADHD hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins í flokki hópa en hún hefur notið mikilla vinsælda bæði innan og utan landsteinanna upp á síðkastið. Einstaklingsflytjandi ársins var hinsvegar Sunna Gunnlaugsdóttir djasspíanisti, tónskáld og tónleikahaldari. Hún lék fjölda tónleika erlendis og hér á landi á árinu. Lagahöfundur ársins var valinn Einar Scheving en plata hans, Su Casa, þótti mynda sterka heildarmynd. Tónleikaröð Stórsveitar Reykjavíkur var valinn tónlistarviðburður ársins sem þótti umfangsmikil og vel útfærð. Sveitin lék á fjölda tónleika og tókst á við mörg ólík og krefjandi verkefni.
Í sígildri og samtímatónlist var Concurrence með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar valin plata ársins. Hún þykir sýna margbreytileika íslenskrar samtímatónlistar í sinni bestu mynd. Flutningur Sinfóníuhljómsveitarinnar þykir fyrsta flokks og sérstaka athygli vekur upptökustjórnin sem er sögð framsækin og metnaðarfull.
Crevace, konsert fyrir flautu og fagott eftir Pál Ragnar Pálsson var valið tónverk ársins. Þar fléttar Páll saman tveimur djörfum einleikspörtum við framsækin og hugvitssöm hljómsveitarskrif. Tónlistarsviðburður ársins var valin Hljóðön - Sýning tónlistar sem flutt var í Hafnarborg en hún þótti spennandi og frumleg með áhrifaríkum upphafstónleikum þar sem vel var unnið með samspil tónlistar og rými. Myrkir músíkdagar hrepptu svo hnossið sem tónlistarhátíð ársins úr flokki hátíða en þóttu hún sérstaklega glæsileg í fyrra og sýna fjölbreytni nýsköpunar í íslenskri tónlist.
Tónlistarflytjandi ársins úr röðum einstaklinga var valinn Bjarni Frímann Bjarnason sem þótti sýna einstaka hæfni sem listrænn stjórnandi í störfum fyrir Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands á liðnu ári. Elektra Ensemble hlaut verðlaun sem tónlistarflytjandi ársins úr flokki tónlistarhópa en hópurinn hefur í áratug verið eitt af flaggskipum íslenskrar samtímatónlistar.
Söngkona ársins er Dísella Lárusdóttir sem vakti sérstaka athygli á árinu fyrir afburða frammistöu á sviði Metropolitan óperunnar í New York þar sem hún fór með hlutverk Tye drottningar í óperunni Akhnaten eftir Philip Glass. Söngvari ársins er Benedikt Kristjánsson en flutningur hans á Jóhannesarpassíu Bachs vakti mikla athygli og hrifningu erlendis á árinu. Hann gaf einsöngsplötu með íslenskum þjóðlögum og sönglögum eftir Schubert.
Í flokknum Önnur tónlist voru verðlaunahafar úr röðum höfunda kvikmynda- og leikhústónleikar auk þjóðlaga- og heimstónlistarhöfunda. Þar fékk Hildur Guðnadóttir verðlaun fyrir tónlistina úr Chernobyl sem fyrr segir. Hildur og Sam Slater fengu einnig verðlaun fyrir upptökustjórn ársins fyrir hljóðmynd þáttanna sem að sögn dómnefndar á fáa sína líka í tónlistarsögunni.
Kristín Anna Valtísdóttir vann einnig til tveggja verðlauna í Opna flokkinum. Plata hennar I must be the devil var valin plata ársins og var henni lýst sem hreinasta galdri í umsögn dómnefndar. Umslagahönnun sömu plötu heillaði einnig g var það valið plötuumslag ársins og var það hannað af Ragnari Helga Ólafssyni og Ara Magg. Fyrsta plata Ástu, Sykurbað, lét ekki mikið fyrir sér fara á árinu en hún hlaut verðlau fyrir plötu ársins í flokki þjóðlaga- og heimstónlistar fyrir frumraun sína sem þótti einstaklega heillandi. Loks hlaut Lára Rúnarsdóttir verðlaun fyrir lag ársins í sama flokki fyrir lagið Altari. Lagið flutti Lára á hátíðinni ásamt hljómsveit sinni.