Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Vitni breyttu framburði fyrir dómi

21.11.2015 - 19:00
Merkið yfir inngangi Héraðsdóms Reykjavíkur að vetri til.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Vinkonur stúlkunnar sem kærði hópnauðgun í Breiðholti í fyrra gáfu annan vitnisburð fyrir dómi en í skýrslutöku lögreglu. Dómurinn byggir að hluta á vitnisburði þeirra. Ekki er vikið að þessu í dóminum.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær fimm pilta af ákæru um að nauðga sextán ára stúlku í maí í fyrra. Samkvæmt niðurstöðu dómsins þótti það meðal annars veikja framburð stúlkunnar að þrjár vinkonur hennar sögðu hana hafa greint öðruvísi frá atburðum næturinnar áður en myndband af atvikinu kom fram. Fyrir dómi sögðu vinstúlkurnar að hún hefði sagt að ef myndbandið kæmist í dreifingu, myndi hún segja að þetta væri nauðgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er þetta ekki í samræmi við vitnisburð vinkvennanna hjá lögreglu sem þær gáfu við upphaf málsins. Þá studdi vitnisburður þeirra atburðalýsingu þolandans. Í dómsúrskurði Héraðsdóms er ekkert minnst á þetta misræmi í framburði þeirra.

Tvær aðrar vinkonur stúlkunnar gáfu skýrslu og báru vitni fyrir dómi. Önnur þeirra sagði að stúlkan hefði sagt að sér daginn eftir atburðinn að henni hefði verið nauðgað. Hin bar að hún hefði sagt sér að átt hefði sér stað kynferðislegt athæfi sem hún hafi ekki viljað.