Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vitlaust veður við Núpá gerir leit erfiða

12.12.2019 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Skilyrði til leitar við Núpá í Sölvadal í Eyjafirði eru mjög slæm. Þar er unglingspilts sem féll í ána í gærkvöldi leitað. Aftakaveður er á svæðinu og hefur verið í alla nótt. Allt er á kafi í snjó og gengur á með éljum. Þá gerir mikið hvassviðri og frost leitarmönnum erfitt fyrir. Þá er krapi í ánni sem geri leit í henni enn vandasamari.

Fennt hefur yfir þær slóðir sem færar voru í nótt.  Enn sem komið er hefur leit ekki skilað árangri. 

Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir að nú sé að hefjast mjög þung leit á svæðinu. Leitað verður þar til hún ber árangur. „Við erum búin að manna mjög öflugan og fjölmennan hóp af leitarmönnum og köfurum og erum að sigla inn í það tímabil núna. Í augnablikinu eru þetta um áttatíu manns. “

Staðan verði tekin á ný eftir fimm klukkustunda leit. „En tíminn er fljótur að líða og þetta er mjög erfitt leitarsvæði,“ bætir Hermann við. 

C130 Hercules flugvél danska flughersins er lent á Keflavíkurflugvelli. Landhelgisgæslan óskaði eftir aðstoð frá danska flughernum vegna leitarinnar og þess ástands sem hefur skapast út af óveðrinu. 

Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að pilturinn hafi verið að aðstoða bónda við að hreinsa krapa frá inntaki rafstöðvar þegar krapabylgja hreif hann með sér. Bærinn í dalnum gengur fyrir rafmagni úr stöðinni.

Mynd með færslu
Mynd með færslu
Mynd með færslu