Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vítaspyrnukeppni gæti fjölgað hjartatilfellum

epa05383546 Iceland fans before the UEFA EURO 2016 group F preliminary round match between Iceland and Austria at Stade de France in Saint-Denis, France, 22 June 2016.
 Mynd: EPA

Vítaspyrnukeppni gæti fjölgað hjartatilfellum

27.06.2016 - 12:21
Hjartaáföllum fjölgar í kringum atburði þar sem mikil geðshræring grípur um sig eins og við náttúruhamfarir, alvarlegar umferðateppur eða jafnvel fótbolta. Þetta segir Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala. Hann segir að komi til vítaspyrnukeppni gæti hún reynt mikið á taugarnar og aukið líkur á hjartatilfellum.

Hjartatilfellum fjölgaði í kringum HM 2006 

Davíð segir frá því í í pistli í tilefni dagsins að í Þýskalandi hafi verið gerð rannsókn í kringum HM í knattspyrnu árið 2006 sem leiddi í ljós að á leikdögum Þjóðverja á HM hafi komum á bráðamóttökur vegna brjóstverkja og hjartsláttartruflana fjölgað til muna. Sambærileg rannsókn var gerð á Íslandi árið 2008 sem sýndi fram á fjölgun hjartatilfella í nokkra daga eftir frægt ávarp þáverandi forsætisráðherra í efnahagshruninu.

Mikil spenna gæti fjölgað hjartatilfellum

Davíð segir að þrátt fyrir mikla spennu í leik Íslands og Austurríkis hafi ekki orðið fjölgun á heimsóknum á Hjartagátt Landspítalans þá en að hætta sé þó á því í dag þar sem stefni í spennandi leik við Englendinga, sérstaklega komi til vítaspyrnukeppni: „Ef svo fer mun heldur betur reyna á taugar landsmanna enda kannski fátt meira taugatrekkjandi en vítaspyrnukeppni þar sem mikið er í húfi.“ 

Hvað er hægt að gera?

Davíð segir ekki hægt að ráðleggja fólki, sem er veikt fyrir, að horfa ekki á leikinn þar sem fáir myndu hlusta á slíkar ráðleggingar en að það séu þó nokkur góð ráð sem gætu dregið úr bráðum uppákomum varðandi hjartað:

  • Forðast að borða þunga máltíð rétt fyrir eða samhliða leiknum, ekki síst fituríkan skyndimat. 
  • Ekki vera illa sofin. 
  • Forðast mikla áfengisneyslu fyrir eða samhliða leiknum. 
  • Forðast miklar reykingar þar sem tóbak eykur á samdrátt í kransæðum og getur þannig aukið líkur á hjartaáfalli undir þessum kringumstæðum. 
  • Þeir sem eru á hjartalyfjum ættu að muna sérstaklega vel eftir á taka þau á leikdag. Þetta á ekki síst við ef þeir taka svokallaða beta blokka og hjartamagnýl. 
  • Ef heitt er í veðri og horft er á leikinn úti, t.d. á Ingólfstorgi getur vatnsdrykkja samhliða verið gagnleg. 
  • Ef spennustigið hjá einstaklingum verður of hátt, þá er gott að draga andann djúpt nokkrum sinnum og jafnvel taka sér stutt hlé frá leiknum.

Muna eftir 112

Davíð bendir á að ef einkenni frá hjarta gera vart við sig, einkum langvarandi brjóstverkur sem eða skyndilegur, hraður og jafnvel óreglulegur hjartsláttur, er gott að muna eftir númeri Neyðarlínunnar – 112.