Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Gullregn er ný íslensk kvikmynd eftir leikstjórann Ragnar Bragason, byggð á samnefndu leikriti sem Ragnar skrifaði og leikstýrði og var sýnt í Borgarleikhúsinu árið 2012. Leikritið naut mikillar hylli bæði áhorfenda og gagnrýnenda þegar það var sýnt og hafði Ragnar mjög snemma hug á að koma því yfir á hvíta tjaldið. Nú hefur það erkefni tekist átta árum síðar. Ragnar er einstaklega fjölhæfur leikstjóri. Hann gerði meðal annars kvikmyndirnar Börn og Foreldra, í samstarfi við Vesturport, og Málmhaus, frá árinu 2013. Einna þekktastur er Ragnar þó fyrir að leikstýra Vaktaseríunni geysivinsælu sem lauk með kvikmyndinni Bjarnfreðarson. Eftir Vakataseríuna gerði Ragnar þáttaröðin Heimsendi árið 2011 en þættirnir náðu ekki sömu hæðum í vinsældum og Vaktaserían. Árið eftir eftir setur Ragnar á svið frumraun sína í leikritaskrifum, Gullregn, þannig að Indíana Jónsdóttir, aðalpersóna Gullregns vaknar til lífsins skömmu eftir að Georg Bjarnfreðarson hverfur af sviðinu og eiga þessar tvær persónur nokkuð margt sameiginlegt.
Indíana, sem leikin er af Sigrúnu Eddu Björnsdóttur bæði í leikritinu og í kvikmyndinni, er öryrki sem býr í Fellahverfi í Breiðholti. Það er augljóst frá upphafi að hún er ógeðfelld persóna. Hún er bæði rasisti sem fyrirlítur nágranna sína, sem flestir eru innflytjendur, og gerir sér auk þess upp veikindi sín. Hún lætur Jóhönnu vinkonu sína, sem Halldóra Geirharðsdóttir leikur og sem er augljóslega réttmætur öryrki og oft mjög kvalin, snúast í kringum sig og þjóna sér. Það eru mistök að lesa persónu Indíönu sem einhvers konar tákn fyrir ákveðinn þjóðfélagshóp eða Íslendinga almennt, til þess er hún allt of ýkt. Hún er ákveðin erkitýpa en líka jaðarkarakter og frávik. Hún er siðblind, sturluð af stjórnsemi og skýlir sér bak við gervi sárþjáðs píslarvotts.
Það er engin leið fyrir áhorfendur að vita hvenær hún segir satt eða ekki um fortíð sína. Það er hins vegar óumdeilanlegt að hún veldur gríðarlegum skaða í kringum sig, sérstaklega á syni sínum Unnari. Indíana er augljóslega haldin Münchausenheilkenninu svokallaða og hefur komið Münchausenheilkenni staðgengils yfir á Unnar. Hún gerir sér upp eigin veikindi og hefur einnig sannfært son sinn og allt samfélagið í kringum þau um að hann sé öryrki. Gullregn er ákveðin stúdía um það sjaldgæfa en jafnframt mjög svo áhugaverða fyrirbæri.