Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vita nú afdrif horfnu heimsálfunnar Adría

20.09.2019 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: Jay Mantri - Pexels
Vísindamönnum og rannsakendum hefur loks tekist að púsla saman sögu hinnar horfnu heimsálfu Adríu. Rannsóknin tók yfir tíu ár. Heimsálfan er talin hafa horfið undir Evrasíuflekann fyrir um 120 milljónum ára. Enn má finna brot og leifar frá álfunni í yfir þrjátíu löndum.

Hvarf undir Evrasíuflekann

Talið er að álfuna Adría hafi rekið norður eftir að hún brotnaði frá móðurfleka sínum Gondvanalandi fyrir um 240 milljón árum. Álfan er sögð hafa verið á stærð við Grænland. 

Fyrir um 100 til 120 milljón árum hafi Adría svo rekist á suðurhluta þeirrar álfu sem síðar varð að Evrópu. Við það hafi Adría orðið undir og farið að mestu í kaf. Efstu lög álfunnar skófust af við það. Þær rústir mynduðu svo fjallgarða á Ítalíu, Tyrklandi, Grikklandi, Balkanskaga og Ölpunum. Einnig megi finna leifar af álfunni, svo sem steina og grjót, í yfir þrjátíu löndum, frá Spáni til Írans.

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay

Erfitt að ráða í örlög Adríu

Aldrei áður hefur vísindamönnum og rannsakendum tekist að draga upp svo nákvæma mynd af álfunni og afdrifum hennar. Vísindamenn rannsökuðu meðal annars grjót og jarðefni úr hinni horfnu álfu og nýttu hugbúnað til að endurskapa og teikna upp álfuna og rannsaka hreyfingar hennar. 

Rannsóknin var ekki auðveld og stóð yfir í meira en áratug, meðal annars vegna þess að leifar af álfunni og upplýsingar um hana, eru svo dreifðar milli landa. Nú hefur öllum þessum upplýsingum verið safnað saman og heildarmynd dregin upp. 

Jarðfræðingurinn Douwe van Hinsbergen, við Utrecht-háskóla í Hollandi, sem fór fyrir rannsókninni, líkti henni við risastórt púsluspil. Búið væri að hræra í öllum stykkjunum og þau komin á víð og dreif. Það hafi svo verið hlutverk vísindamanna að raða stykkjunum rétt saman á ný og finna heildarmyndina. 

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Gondwana Research fyrr í mánuðinum.