Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vísbendingar um tölvuveirusýkingar hér

14.05.2017 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd: Amanda Mills, USCDCP - http://www.public-domain-image.c
Póst- og fjarskiptastofnun segir að vísbendingar hafi borist um tölvuveirusýkingar hér á landi hjá erlendum upplýsingaveitum en ekki hafi borist staðfestar tilkynningar um að tölvur hér hafi orðið fyrir árás í bylgju gagnagíslatöku sem gengur nú yfir heiminn. 

Óþekktir glæpamenn notuðu búnað frá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni, NSA, til þess að dulkóða gögn í tölvum, þar sem Windows-stýrikerfið hafði ekki verið uppfært. Notendur fengu skilaboð um að ef þeir vildu aðgang að gögnum sínum á ný þyrftu þeir að greiða lausnargjald í rafrænu myntinni Bitcoin.  Árásin er mjög umfangsmikil og hafa hundruð þúsunda tölva sýkst.

Á vef Póst- og fjarskiptastofnunar er farið í gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig bregðast megi við sýkingu. Þá sé mikilvægt að tilkynna til Netöryggissveitarinnar CERT-ÍS verði vart við sýkingu.