Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vísbendingar um nýjar loðnugöngur undan Melrakkasléttu

Mynd með færslu
 Mynd: Hafrannsóknastofnun
Ekki hefur tekist að staðfesta nýjar loðnugöngur í þeim rannsóknarleiðangri sem nú stendur yfir. 150 þúsund tonn þarf til viðbótar svo hægt verið að mæla með veiðum. Sex skip eru nú við loðnuleit, öll mönnuð sérfræðingum frá Hafrannsóknastofnun.

Það er rúm vika síðan rannsóknaskipið Árni Friðriksson hélt til loðnurannsókna og fimm veiðiskip fylgdu í kjölfarið. Þetta er þriðji leiðangurinn á skömmum tíma.

Öll skipin norður af landinu

Árni Friðriksson hélt á undan hinum skipunum og byrjaði rannsóknir undan Suðausturlandi, en undanfarið hafa skipin öll verið norður af landinu. „Og við erum núna að leggja lokahöndina á að fara yfir svæðin úti af Norðurlandi og úti af Vestfjörðum,“ segir Birkir Bárðarson leiðangursstjóri.

Loðna við Melrakkasléttu sem þarf að rannsaka betur

Sú viðbótarloðna sem sást í síðasta leiðangri virðist vera að ganga upp á landgrunnið fyrir norðan land, í Eyjafjarðarál og Grímseyjarsundi. Eitt skipanna fór út á Dornbanka djúpt vestur af landinu, þar sem togarar höfðu orðið varir við loðnu, en Birkir segir lítið hafa komið út úr því. Þá segir hann að loðna hafi fundist undan Melrakkasléttu, en það eigi eftir að rannsaka betur hvort það eru nýjar loðnugöngur. „Það er verið að mæla þá loðnu þannig að ég veit ekki magn þar. En svona, enn sem komið er þá höfum við ekki séð neitt mikið nýtt í dæminu, miðað við síðustu yfirferð.“

Búið að yfirfara öll gögn í næstu viku 

En hann vonast til að það náist að ljúka að mestu við áætlaðar mælingar áður en það gengur í brælu í nótt. Síðan taki einhverja daga að vinna úr öllum gögnum. „Þannig að það verður einhverntíma í næstu viku sem við verðum búnir að keyra saman gögnin og komnir með einhverja mynd á þetta.“

Sérfræðingar frá Hafró í öllum sex skipunum

Og þetta er óvenju öflugur rannsóknarleiðangur. „Ég held að það megi segja að það hefur ekki verið mælt fyrr á sex skipum með þessum hætti. Það er að segja að öll skipin séu að mæla með fólk frá Hafró um borð,“ segir Birkir. „Og þetta er bara mjög æskileg aðferð myndi ég segja. Sérstaklega í þessum stuttu veðurgluggum sem eru að bjóðast.“