
Meira en 700.000 Róhingjar dvelja í flóttamannabúðum í Bangladess, fólk sem flýði ofsóknir hersins í Mjanmar. Flóttafólkið hefur greint frá margvíslegum ódæðisverkum hermanna og annarra, þar á meðal morðum og skipulögðum nauðgunum.
Suu Kyi segir í grein sem birtist í blaðinu Financial Times í morgun að mannréttindasamtök og erindrekar Sameinuðu þjóðanna hafi verið með órökstuddar fullyrðingar um ódæðisverk í Mjanmar og að frásagnir flóttamanna hafi verið ýktar.
Stjórnvöld í Afríkuríkinu Gambíu höfðuðu á liðnu ári mál á hendur Mjanmar og sökuðu herinn þar um þjóðarmorð gegn Róhingjum. Málið er til umfjöllunar hjá Alþjóðadómstólnum í Haag og er búist við að það taki nokkur ár.
Dómstóllinn fyrirskipaði í morgun stjórnvöldum í Mjanmar að gera allt í sínu valdi til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á Róhingjum.