Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vísað úr landi með þriggja mánaða barn

01.04.2018 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot  - rúv
Nígerísk kona, og þriggja mánaða sonur hennar sem fæddist hér á landi, fá ekki efnislega meðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og hefur verið gert að fara til Ítalíu, þaðan sem konan flúði vegna slæmra aðstæðna. Hún segir að á Ítalíu hafi margar konur í hennar stöðu ekki annan kost en vændi til að komast af.

Melody Otuwho er fædd árið 1994, en hún kom hingað til lands í ágúst í fyrra. Í desember fæddist henni sonurinn Emanuel Winner á Landspítalanum. 

„Ég vil það sem er syni mínum fyrir bestu. Ég fékk aldrei tækifæri á að ganga í skóla og ég vil að sonur minn geri það. Ég vil að sonur minn eigi kost á góðri framtíð,“ segir Melody.

Flúði kynferðisofbeldi

Flótti Melody frá Nígeríu er raunasaga. Hún segist hafa farið þaðan til Ítalíu nítján ára gömul þegar faðir hennar ætlaði að gifta hana eldri manni til fjár. Á flóttanum varð hún fyrir árásum og kynferðisofbeldi, og tókst að sögn með naumindum að flýja mansal.

Á Ítalíu fékk Melody stöðu flóttamanns en aðstæður hennar voru bágbornar, hún var bæði heimilislaus og án atvinnu. Þegar hún komst að því að hún væri ófrísk ákvað hún að flýja til Íslands, eftir að hafa heyrt af landinu frá samferðafólki sínu.

„Á Ítalíu er enga vinnu að fá. Til að komast af þurfa margar stúlkur að fara í vændi. Ég vil ekki gera slíka hluti. Ég vil vera áfram á Íslandi, ég elska Ísland,“ segir hún.

Barnið fái að njóta vafans

Ákvörðun Útlendingastofnunar hefur verið kærð til kærunefndar útlendingamála. Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir, lögfræðingur Melody, segir stöðu mæðginanna sérstalega viðkvæma. 

„Það er ýmislegt að og við gagnrýnum það í greinargerð til kærunefndairnnar. En svona kannski fyrst og fremst þá teljum við skorta mikið á hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Í ákvörðuninni kemur sem sagt fram að hagsmunum barnsins sé ekki stefnt í hættu, með því að hann fylgi móður sinni til Ítalíu, en það er náttúrlega ekki það sem Útlendingastofnun á að leggja mat á heldur hvað þjónar hagsmunum barnsins best, en ekki hvort honum sé stefnt í hættu,“ segir hún.

Sigurlaug segir eðlilegt að barnið fái að njóta vafans.

„Þetta er sterkur strákur, Winner, og við ætlum okkur að sigra þessa baráttu. Og bara frá fyrsta degi sem ég leit í augun á þessu barni þá var algjörlega ljóst að hann ætlar sér ekkert að fara héðan.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV