Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Virkar sem neyðarviðbragð og yfirklór“

21.12.2019 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir það neyðarviðbragð og yfirklór að Kristján Þór Júlíusson ætli einungis að segja sig frá málum Samherja en halda áfram sem sjávarútvegsráðherra. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar þess efnis ekki til þess fallna að auka traust á íslenskum stjórnvöldum og sjávarútvegi.

Á ríkisstjórnarfundi í gær var ákveðið að Kristján Þór myndi segja sig frá málum sem tengjast Samherja og útgerðarfélagi Akureyringa vegna fiskeldis og nytjastofna við Ísland. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra ber nú ábyrð á þeim. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir ekki nægilega langt gengið.

„Það að hann ætli bara að segja sig frá þessum mjög niðurnjörfuðu afmörkuðu stjórnvaldsákvörðunum en ekki stærri ákvörðunum sem varða sjávarútveginn í heild sinni og stærstu aðila í sjávarútvegi er ekki til þess fallið að vekja traust. Ég vil kalla á ábyrgð forsætisráðherra í þessum efnum sem á að vera ráðgefandi gagnvart sínum ráðherrum vegna hæfis. Auðvitað skiptir máli að til þess að traust skapist um þetta embætti og til þess að traust ríki um þetta embætti að það sé ekki neinum vafa undirorpið að Kristján Þór sé hæfur til að gegna þessu hlutverki,“ segir Þórhildur.

Oddný Harðardóttir, formaður Þingflokks Samfylkingarinnar, segir nauðsynlegt að ríkisstjórnin gangi lengra. Kristján Þór geti ekki sinnt embættinu eins og staðan er.

„Mér finnst þetta útspil vera frekar máttlaust í þeirri stöðu sem ríkisstjórnin og sjávarútvegsráðherrann er í. Þarna er verið að láta líta út fyrir að það sé verið að taka á málum. Það væri betra ef Kristján Þór myndi ekki vera sjávarútvegsráðherra og það væri alveg skýrt að hann kæmi ekki nálægt ákvörðunum sem varða sjávarútveginn. Það liggur við að það sé sama hvað ákveðið er varðandi þá atvinnugrein að það mun alltaf koma með einum eða öðrum hætti við svona stórt fyrirtæki eins og Samherja,“ segir Oddný.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tekur í sama streng. Hún segir það neyðarviðbragð og yfirklór að Kristján Þór ætli einungis að segja sig frá málum sem tengjast Samherja.

„Ríkisstjórnin var nauðbeygð til að taka einhver skref. Hitt er síðan að meginmálið er að efla traust og trúverðugleika á fiskveiðistjórnuninni auðlindinni okkar til lengri tíma. En eins og ég segi þá virkar þetta sem neyðarviðbragð og yfirklór,“ segir Þorgerður.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV