Vinstri græn vildu ekki hækka tekjuskatt

13.12.2016 - 12:33
Katrín Jakobsdóttir mætti á fund forseta Íslands 2. desember 2016 til að ræða valmöguleika í stjórnarmyndunartilraunum.
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Vinstri græn vildu ekki hækka tekjuskatt í viðræðum um fimm flokka stjórnarsamstarf sem lauk í gær heldur vildu auðlegðarskatt á stóreignafólk og sykurskatt. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna segir tímabært að horfa til myndunar minnihlutastjórnar og útilokar ekkert. 

Tilefni þessara orða er að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að útgjaldatillögur VG hefðu verið svo háar að til þess að fjármagna þær hefði þurft að hækka meðal annars tekjuskatt. 

„Nei það gerðum við ekki. Við vorum auðvitað með tillögur um tekjuöflun og lögðum þar til, til dæmis auðlegðarskatt á stóreignafólkog við lögðum líka til tillögur um að taka til á nýjan leik sykurskatt eða einhvers konar lýðheilsuskatt eða eitthvað slíkt en það lá fyrir að það náðist ekki sátt um tekjuöflun. En við höfum ekki verið að leggja til hækkanir á almennum tekjuskatti, nei,“ segir Katrín. 

Sérðu fyrir þér að það verði mynduð hér ný ríkisstjórn fyrir áramót? „Eigum við ekki að vona það að það verði komin ný ríkisstjórn fyrir áramót,“ svarar Katrín.

Og hvernig mun hún líta út að þínu mati? „Ég held að staðan núna sé þannig að fólk er farið að hugsa aðeins út fyrir kassann og er reiðubúið að skoða kannski aðrar leiðir. Það var auðvitað lögð mikil áhersla á myndun meirihlutastjórnar í upphafi. Nú hafa hugmyndir um myndun til dæmis minnihlutastjórnar skotið upp kollinum og ég held að það sé eitthvað sem allir flokkarnir hljóta að velta fyrir sér.“

Getið þið hugsað ykkur að taka sæti í minnihlutastjórn? „Ekkert útilokað í þeim efnum,“ svarar Katrín.

Enn sem komið er er lítið farið að spyrjast út um stjórnarmyndanir en nú er sennilega allt opið en forsetinn útilokaði sjálfur ekki minnihlutastjórn í yfirlýsingu sinni í gær.

Þingfundur hefst klukkan hálftvö og í dag mun Bjarni Benediktsson mæla fyrir frumvarpi sínu um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og frumvarpi um breytingar á lögum um kjararáð sem hann flytur ásamt formönnum allra annarra flokka. 

Staðan í stjórnarmyndunarviðræðum rædd í Kastljósi í kvöld

Fulltrúar allra flokkanna sjö sem sæti eiga á Alþingi mæta í beina útsendingu í Kastljósi í kvöld til að ræða stöðuna í stjórnarmyndunarviðræðum. Enn á eftir að staðfesta hverjir mæta frá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki en frá Pírötum kemur Birgitta Jónsdóttir, Logi Einarsson frá Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir frá VG, Óttarr Proppé frá Bjartri framtíð og Hanna Katrín Friðriksson frá Viðreisn. Útsending hefst klukkan 19:35.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi